144. löggjafarþing — 16. fundur,  8. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[19:06]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hefði nú viljað meiri tíma í andsvar. Ég sé mjög skýrt mynstur í þessari umræðu. Þegar menn tala um að aukin frelsisvæðing valdi aukinni neyslu þá segja þeir aldrei að hún valdi aukinni neyslu unglinga. Ég tel mikinn grundvallarmun á neyslu fullorðins einstaklings á áfengi og neyslu unglings, nefnilega þann að aldur einstaklings, þegar hann byrjar að nota áfengi eða annað dóp, og áfengi er dóp, skiptir sköpum þegar kemur að því hvernig viðkomandi mun síðan umgangast og neyta áfengis til framtíðar. Þetta er ljóst af þeim rannsóknum sem ég hef séð. Þetta er alveg ljóst í orðræðu þeirra sem þekkja málaflokkinn hvað best. Þetta er lykilatriði. Þetta skiptir öllu máli.

Þegar menn vara við aukinni neyslu þá dirfast þeir aldrei að segja „aukinni neyslu unglinga“. Ríkið hefur til dæmis aldrei verið opið lengur en það er nú en samt sem áður höfum við sýnt fram á stórsigur í baráttunni gegn neyslu unglinga. Auðvitað eykst heildarneyslan, jafnvel án túristanna mundi það gerast. En (Forseti hringir.) lítur hv. þingmaður ekki svo á að við eigum (Forseti hringir.) fyrst og fremst að huga að neyslu unglinga þegar kemur að þessum málaflokki?