144. löggjafarþing — 16. fundur,  8. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[19:15]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Skilaboðin eru mjög skýr, að á Íslandi eigi að nota meira hillupláss undir áfengi en við gerum núna og hafa það í fleiri verslunum en við gerum núna. Reyndar held ég að þróunin yrði sú að það yrðu stóru risarnir sem hefðu þessa vöru á boðstólum og aðrir síður. Það held ég að yrði þróunin. En skilaboðin eru þau að svara eigi ákalli iðnaðarins, þessa iðnaðar, þessa offramleiðsluiðnaðar, um að stækka hillupláss undir áfengi.

Ég kem síðan ekki auga á nein rök sem mæla með þessu, hvorki frá sjónarhóli heilbrigðisyfirvalda né neytenda og ekki heldur út frá jafnræðissjónarmiðum. Sjónarmiðið er það eitt að færa hagnaðinn af þessu yfir til verslunarinnar. Það er ekkert annað. Ég kem ekki auga á neitt annað, ekkert.