144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

ummæli ráðherra í Kastljósi.

[11:04]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir upplýsandi viðtöl í fjölmiðlum á undanförnum dögum. Það er greinilegt að líta þarf á heildarmyndina á ýmsum sviðum.

Það vakti athygli mína hvað hæstv. ráðherra sagði, bæði í Kastljósi á RÚV og í þættinum Ísland í bítið á Bylgjunni. Ég vil, með leyfi forseta, vitna í hæstv. ráðherra með styttingum: Hvaða tengsl hafa fjölmiðlamenn úr sinni fortíð við eitt og annað, t.d. starfsmenn í Kastljósi? Er ekki rétt að byrja á því ef menn ætla inn á þessa braut? Er ekki rétt að menn byrji á sjálfum sér? — Þetta er dæmigerð „þú líka“-rökvilla. Efnislega er þetta ásökun á starfsmenn Kastljóss án röksemdafærslu. Hvort sem satt reynist eða ekki: Er það í verkahring hæstv. ráðherra að gagnrýna fjölmiðla á þennan hátt eða yfirleitt?

Önnur tilvitnun, með styttingum: Varðandi þetta nýjabrum að fara að hjóla í einstaka starfsmann hjá ráðuneytinu þá fannst mér það mjög sérstakt. Það erum við stjórnmálamenn sem berum ábyrgð. — Hér kemur aftur fram ákveðin gagnrýni á fjölmiðla þar sem hæstv. ráðherra tjáir skoðun sína á því hvernig fjölmiðlar eigi að haga starfsemi sinni. Vegna þessarar tilvitnunar vil ég bæta við annarri spurningu: Eru það stjórnmálamenn, þá væntanlega ráðherra, sem bera ábyrgð á verkum einstakra starfsmanna hjá ráðuneytinu?

Spurningarnar eru sem sagt tvær: Hvort það sé í verkahring ráðherra að gagnrýna fjölmiðla og hvort ráðherra beri ábyrgð á einstaka starfsmönnum hjá ráðuneytinu.

(Forseti (EKG): Forseti vill vekja athygli á því að einhver bilun er í klukkunni en hann reynir eftir föngum að fylgjast með tímanum.)