144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[12:05]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að velta þessu upp og ég þakka honum fyrir áhugann á að kynna sér þessar skýrslur, ég get látið hann fá skjal með tenglum yfir þær. En hvað skýrir þann góða árangur sem hér hefur náðst í að draga úr neyslu og unglingadrykkju á undanförnum 15 árum? Ég held að það sé nokkuð ljóst að það eru margir áhrifaþættir, fræðsla, forvarnir og takmarkað aðgengi. Ekkert eitt af þessu ræður úrslitum, þetta eru margir samverkandi þættir.

Ef einn þáttur er tekinn út, fræðslu og forvörnum til dæmis hætt, mun neyslan aukast aftur að mínu mati, ég held að það sé nokkuð ljóst. Og ef aðgengið er aukið verulega, verslunum til dæmis fjölgað úr 48 í 112, og víni stillt upp í öllum rekkum við hliðina á matvöru — sem hér er verið að leggja til; allt vín undir 22% má standa við hliðina á kornflexi og jógúrt og hvar sem er í búðinni; það má að vísu ekki afgreiða það eftir kl. 8 á kvöldin — þá held ég að það mundi hafa sitt að segja.