144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[12:53]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Píratar eru alltaf með svo flóknar spurningar. Já, auðvitað eigum við að líta til þess.

Ég held að með auknu aðgengi aukist drykkjan á heimilum. Ég er alveg sammála því að við Íslendingar höfum afskaplega gaman af að skvetta í okkur. Áfengisneysla hefur breyst mjög mikið á Íslandi síðan bjórinn var innleiddur hérna. Sterkt áfengi hefur bara hrunið en bjór og léttvín hafa selst miklu meira. Við drekkum samt meira. Ég hef séð afleiðingar af því með eigin augum. Þegar ég fer á bar að horfa á fótboltaleiki þá finnst fólki allt í lagi að fá sér einn, tvo bjóra og keyra svo heim. Það er mikið um það. Ég held að við Íslendingar komum alltaf til með að drekka en þetta er bara spurning um hvernig við viljum hefta aðgengi ungs fólks sérstaklega að áfengi. Það á ekki að hafa það beint fyrir framan þau inni í búðum.