144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[14:54]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni og fyrirspyrjanda Guðbjarti Hannessyni fyrir andsvar hans og spurningu.

Já, ég fór ekki leynt með það í ræðu minni að ég er talsmaður frelsis í viðskiptum. Í þessari umræðu er auðvitað erfitt að ræða þetta vegna þess að við erum öll sammála um að þetta sé engin venjuleg neysluvara. Það má líka halda uppi þeim rökum varðandi aðrar vörur. Við eigum og við berjumst sameiginlega gegn því á opinberum vettvangi sem og annars staðar með frjálsum félagasamtökum og íþróttafélögum að halda uppi fræðslu og miðlun um áhrif af neyslu áfengis. En það breytir ekki afstöðu minni gagnvart hagræði og frelsi í viðskiptum og verslun og ábyrgð (Forseti hringir.) einstaklingsins.