144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[16:02]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vímu- og fíkniefni eru afskaplega víðtækur málaflokkur. Fæst þessara efna eru eins. Sum þeirra hafa sambærilega sögu en fæst þeirra alveg þá sömu. Sem dæmi hefur áfengi þá sérstöðu að við höfum mörg þúsund ára hefð af því að nota það í þó nokkuð miklu magni. Elstu heimildir eiga það sameiginlegt að menn notuðu mjög mikið áfengi, eiga af því miklar skrýtlur og margar sögur, ýmist góðar eða vondar. Það breytir svolítið því hvaða hlutverki tiltekið vímuefni þjónar í viðkomandi menningu. Lagalegt umhverfi sem virkar kannski á eitt vímu- og fíkniefni virkar ekki endilega eins á annað. Gott dæmi um þetta er tóbak. Það virkar tiltölulega vel að banna tóbak, hækka verðið á því o.s.frv. vegna þess að það veldur ekki eiginlegri vímu eða víman er mjög skammvinn, er lítil og truflar mann ekki við það til dæmis að keyra bíl nema bara að hendurnar eru uppteknar fyrst og fremst. Hún veldur ekki breyttu hugarástandi á borð við áfengi, kannabis, amfetamín, kókaín, hvað þá LSD.

Þess vegna virkar kannski eitthvað gagnvart tóbaksfíkn sem virkar ekki gagnvart til dæmis heróíni eða e-pillunni, einhverju því um líku.

Hvað varðar orð hv. þingmanns um skaðsemi mismunandi efna er rétt að áfengi er alveg stórhættulegt efni. Ef maður skoðar það bara út frá þeim forsendum er næstum því hlægilegt, ef það væri ekki svo sorglegt, hversu yfirþyrmandi hræðilegt efni það er við hliðina á efnum sem eru þó langt frá því að vera skaðlaus, t.d. e-pillan, kannabis og fleira sem eru ekkert skaðlaus efni, þau eru þó að því er virðist skaðminni en áfengi, vissulega hvað varðar dauðsföll og hvað varðar varanlegt heilsutjón.

Ég lít ekki svo á að lagaumhverfið eða frjálslyndi þar í eigi að afmarkast af skaðsemi efnisins heldur því hvaða áhrif lagaumhverfið hefur á neikvæðar afleiðingar neyslu þess. Þar á milli og skaðsemi efnisins er ekki endilega samband.