144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[16:06]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir sérlega skemmtilega og málefnalega ræðu þar sem hann veltir upp mörgum sjónarhornum á þessu máli, bæði lýðheilsulegum og líka orsakasamhengi hlutanna. Hann hefur vakið athygli á því að það er ákveðin mótsögn, að því er virðist, í því að aðgengi að áfengi hefur verið aukið með fjölgun útsölustaða og auknu frjálsræði en á sama tíma hefur unglingadrykkja minnkað.

Mig langar að spyrja hv. þingmann út í það hvernig orsakasamhengi það sé. Er það vegna þess að aukið frelsi hafi leitt af sér vínmenningu eða eru það aðrir þættir sem ráða þessu? Sjálfur er ég þeirrar skoðunar. Ég held að menn vanmeti það að í vinnunni við að breyta afstöðu til áfengis hjá ungu fólki fólst líka mikið af skilaboðum frá fullorðnu fólki og reglur breyttust. Til dæmis ríkti ákveðið umburðarlyndi gagnvart því að unglingar mættu drekka á skemmtunum í grunnskólum, það var lengi vel þannig. En eftir áföll og erfiðleika tóku foreldrasamtökin sig til, ásamt íþróttahreyfingunni og fjölda annarra aðila, og reyndu að breyta viðhorfum til áfengis og það markmið var sett að hreinsa grunnskólana.

Mér finnst þessi pæling mjög skemmtileg og mér finnst mjög mikilvægt, eins og hv. þingmaður gerir, að velta fyrir sér afleiðingum af breytingum, að velta fyrir sér orsakasamhengi. Hvað kemur fyrst og hvað síðast?

Sama hefur gerst í Bretlandi þar sem gríðarlegri orku hefur verið eytt í að stöðva aukna unglingadrykkju, sérstaklega hjá stúlkum en drykkja þeirra jókst af miklum krafti fyrir 10 til 15 árum.

Mig langar til að biðja hv. þingmann um að svara þessu. Er ástæða til að breyta núna? Við erum að tala um að breyta í einhverja átt. Er það ávísun á bætta vínmenningu?