144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

úthlutun menningarstyrkja.

[14:38]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við úthlutun á fjármunum sem var einskiptisaðgerð sem hefur farið fram og er sagt að hafi verið farið í á faglegum forsendum. Minjastofnun á að hafa eftirfylgni með þessum framkvæmdum og það mun koma í ljós með tímanum hverju þær skila og hvernig það gengur. Ég treysti Minjastofnun fullkomlega í því efni en allsherjar- og menntamálanefnd fór nýlega í heimsókn til stofnunarinnar og þar eru mörg og brýn verkefni.

Það sem við skulum læra af þessu máli og reyndar öllum málum er hvernig við ætlum að hafa fyrirkomulagið í framtíðinni. Því er öll svona umræða mikilvæg. Hvernig viljum við hafa þetta til framtíðar? Þetta verður að vera fyrirsjáanlegt og fólk verður að geta treyst á áætlanirnar og það sem boðað er í þeim.

Í þennan mikilvæga málaflokk, varðveislu menningarminja, eru einmitt boðaðir auknir fjármunir. Þetta getur snert uppbyggingu atvinnumála eins og var markmiðið með úthlutununum og það er þá helst í kringum ferðaþjónustu. Við byggjum á þeirri grænu atvinnugrein, ferðaþjónustu, og þá verðum við að hafa einhvern menningararf til að sýna. Þá er mikilvægt að ákveða hvernig við náum því markmiði að auka atvinnu og hvernig við úthlutum fjármunum til þeirra svæða sem þurfa á því að halda. Aðstæður eru misjafnar og svæðin eru í samkeppni um ferðamenn og um atvinnuuppbyggingu og eru misjafnlega í stakk búin til að takast á við þessi verkefni. Sum geta gert þetta sjálf, rekið ferðaþjónustu og annað á svæðinu með þeirri atvinnustarfsemi sem er fyrir, en önnur eru veikari og eiga erfiðara með það. Ég held að við eigum að hafa það til hliðsjónar þegar við forgangsröðum þessum peningum, sem eru, eins og ég segi, peningar þjóðarinnar (Forseti hringir.) og fara ber varlega með þá.