144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

240. mál
[15:19]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er margt sem hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni en ég sé mig knúinn til að leiðrétta og svara kannski nokkrum spurningum sem hann varpaði fram. Þetta mál verður að sjálfsögðu skoðað vandlega í efnahags- og viðskiptanefnd og reynt að fá sem bestar skýringar á því, en af því sem blasir við við lesturinn að mínu mati er þetta tiltölulega skýrt. Það er ekki verið að auka vafa í málinu um hvernig skuli taka á því heldur er verið að auka skýrleikann. Frumvarpið felur ekki í sér eiginlega breytingu á efnisatriðum heldur er það til að tryggja að skýrari lagastoð verði sett vegna þeirra frádráttarliða sem ræddir eru í 8. gr. laganna.

Það er meira að segja gert enn þá nákvæmara í a-lið. Þar er talað um að þá skuli önnur almenn lækkun eða niðurfelling fasteignaveðkrafna sem lögaðilar samkvæmt 1. mgr. 2. gr. framkvæmdu frá og með 1. janúar 2008 og var sambærileg þeim úrræðum sem getur í b- og c-lið 1. mgr. — það var ekki verið að tína til önnur tilvik en þau sem eru sambærileg þeim sem getur í b- og c-lið, þ.e. sértækri skuldaaðlögun og 110%-leiðarinnar — og ekki telst til tekna samkvæmt ákvæði til bráðabirgða XXXVII í lögum um tekjuskatt. Það skal einnig dregið frá.

Með þessu er verið að tryggja að þeir sem njóta sömu fyrirgreiðslu í bönkum og eru í sömu stöðu fái sömu meðhöndlun í þessari skuldaleiðréttingu. Það á sem sagt að taka af allan vafa um það. Ég held að það sé til bóta. Ég held að hv. þingmaður hljóti að vera sammála mér um það, er það ekki, að það sé þá þess virði að skoða það að bæta málið að því leyti.