144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:36]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ákvað að kveðja mér hljóðs og biðja um andsvar við hv. þingmann út af orðunum í lok ræðu hans. Hann er að segja hér að það hljóti að vera verkefni þingnefndar að meta hvar kostir eigi að vera staðsettir í rammaáætlun sem ekki er fjallað um í þessari tillögu — vegna hvers? Af því að hann er ósammála verkefnisstjórninni. Hver er ástæða þess að hann segir að það hljóti að verða verkefni nefndarinnar sem þá tekur við málinu? Hann gerir þá væntanlega ráð fyrir að það verði nefndin sem hann fer fyrir hér í þinginu, atvinnuveganefnd, að hún eigi núna að fara að meta kosti sem eru inni á borði hjá verkefnisstjórninni og sagt er frá í tillögunni að enn liggi ekki fyrir nægar upplýsingar til að hún geti tekið ákvörðun.

Skildi ég þetta rétt? Hvaða kostir eru það þá sem hv. þingmaður telur að nefndin eigi að fara yfir? Er það virkilega svo að hv. formaður atvinnuveganefndar á Alþingi segi ekki mark takandi á faglegri verkefnisstjórn, það eigi bara að ryðja henni til hliðar og það verði nefndarinnar að taka ákvarðanir um þetta og fara að meta, eins og hann orðaði það sjálfur, aðra virkjunarkosti en verkefnisstjórnin hefur lokið við að fjalla um og sent hér inn? Ég bara trúi þessu ekki, virðulegi forseti, og ég ætla því að biðja hv. þingmann að staðfesta við mig að þetta hafi verið meining hans eða taka þá af öll tvímæli um að hann hafi hugsanlega gengið of langt áðan í orðavali. Ef hann telur að nefndin sé betur til þess fallin en verkefnisstjórnin að taka ákvörðun og meta hvar virkjunarkostir eigi að vera í rammaáætlun (Forseti hringir.) er hann búinn að sprengja þetta ferli í loft upp.