144. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2014.

takmarkað aðgengi að framhaldsskólum.

[16:06]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Það er öllum mikilvægt að hafa traust og gott skólakerfi þar sem allir geta fengið menntun við sitt hæfi. Það er einnig mikilvægt að hafa öflugar skólastofnanir, þar á meðal framhaldsskóla, um alla landsbyggð.

Hæstv. menntamálaráðherra fór fyrir stuttu fundaferð um landið og kynnti áform sín um umbætur í menntamálum. Þar var meðal annars fjallað um styttingu á framhaldsskólanámi og ýmsar breytingar er snúa að menntakerfinu. Tel ég að mörg af þeim áformum geti orðið til góðs. Hins vegar tel ég nauðsynlegt að þessar breytingar verði gerðar í nokkrum skrefum og að kerfið og vinnan innan þess fái að aðlagast breyttu umhverfi og koma að því ferli er að því lýtur.

Þrátt fyrir þetta hef ég áhyggjur af stöðu framhaldsskólanna eins og hún birtist í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2015 og þeirri fækkun sem það felur í sér á nemendaígildum, sérstaklega í ljósi þess að undanfarin ár hafa skólastofnanir landsins, þar á meðal framhaldsskólar, þurft að sníða sér mjög þröngan fjárhagslegan stakk.

Það hefur haft þau áhrif að víða hefur þurft undanfarin ár að draga saman í námsframboði og einnig þekkist það að úrræði er varðar sérkennslu og sérúrræði fyrir nemendur hafi verið skert, og er það miður. Álagið hefur verið mikið á starfsfólk og komið er að þolmörkum í þeim efnum.

Þrátt fyrir þetta mikla álag hafa starfsmenn skólanna unnið mjög gott starf. Fjarmenntaskólinn hefur verið settur á fót en markmið hans er að auka framboð náms á framhaldsskólastigi á starfssvæði þeirra skóla er vinna saman að kerfinu og á landinu öllu. Dreifnám er víða í góðum gangi og nauðsynlegt er að standa vörð um þá starfsemi. Dreifnám hefur nefnilega jákvæð áhrif fyrir nemendur er búa á landsbyggðinni. Þeir geta verið lengur heima og þetta styður vel við byggðasjónarmiðin. Mikilvægt er að fá svör við hvað niðurskurður í formi fækkunar á nemendaígildum þýðir fyrir framhaldsskóla landsins og hver tilgangurinn er. Ef það varðar styttingu framhaldsskólanámsins, er þá ekki ráð að staldra aðeins við, vinna málið í fáum góðum skrefum og með aðlögun kerfisins í huga?