144. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2014.

viðvera heilbrigðisráðherra í umræðu um sölu áfengis.

[18:13]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég hef vakið máls á því áður úr þessum ræðustól að ég teldi æskilegt og nauðsynlegt að hæstv. heilbrigðisráðherra yrði viðstaddur þá umræðu sem er að hefjast. Hér er um að ræða lýðheilsumál, heilbrigðismál. Við erum búin að lesa upp úr ræðustól samþykktir hæstv. ráðherra sem birtar voru á stjórnarráðsvefnum 24. janúar þessa árs, hygg ég að það hafi verið, áherslur sem ganga þvert gegn því frumvarpi sem hér er lagt fram. Öllu heldur stríðir frumvarpið sem er til umræðu algerlega gegn þessari yfirlýstu stefnu stjórnvalda. Ég óska eftir því að í fyrsta lagi verði kannað hvort hæstv. ráðherra er í húsinu, í öðru lagi hvort hann eigi möguleika á að koma til umræðunnar og í þriðja lagi, ef svo er ekki, að þessari umræðu verði frestað.