144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

framkvæmd skuldaleiðréttingar.

[10:37]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég átta mig ekki alveg á því hvernig hv. þingmaður vill nálgast þetta mál. Þetta er ekki mál sem gengur út á að færa réttindi til fjármálafyrirtækja heldur til einstaklinga, til heimilanna, þeirra sem skulda. Ríkið gengst hér ekki í ábyrgð fyrir nokkrum hlut heldur veitir réttinn til heimila sem skulduðu verðtryggð lán á árunum 2008 og 2009. Eftir ákveðnum reiknireglum verður greitt út til þeirra inn á þau lán sem viðkomandi óska eftir að verði gerð upp.

Það er ekki svo að aðgerðin taki tillit til þess hvort lán er á 1. veðrétti eða 4. eða hvort viðkomandi lán standi vel gagnvart veðinu eða verr. Aðgerðin er öll skuldaramiðuð.