144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

staða verknáms.

[11:11]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Stefnuleysi hæstv. menntamálaráðherra í málefnum verknáms kom átakanlega í ljós í svari hans áðan. Það er sorglegt að heyra hæstv. ráðherra tala eins og vandamálið sé atvinnulífið í landinu sem skilji bara ekki mikilvægi verknáms. Það hefur ekkert skort á það að atvinnulífið skilji mikilvægi verknáms. Það hefur ekkert skort á það að aðilar vinnumarkaðarins hafi tekið höndum saman, hafi byggt upp heilt fræðslukerfi sín á milli til að auka þekkingu í atvinnulífinu. Ég vann að því sem félagsmálaráðherra að koma ungu atvinnulausu fólki til mennta með framlögum úr Atvinnuleysistryggingasjóði með aðilum vinnumarkaðarins og í góðri samvinnu við þá. Á síðasta kjörtímabili var lögfest ákvæði um vinnustaðanámssjóð nákvæmlega í þeim tilgangi.

Hæstv. ráðherra getur ekki komið hingað og skellt skuldinni á atvinnulífið á sama tíma og hann er að leggja af vinnustaðanámssjóð. Vinnustaðanámssjóður var raunveruleg aðgerð til að auðvelda starfsnám fólks. Forustufólk í verkmenntaskólum vítt og breitt um land hefur staðfest við mig að tilkoma hans hafi haft grundvallaráhrif til að auðvelda ungu fólki og fólki á öllum aldri að vera í starfsnámi og fá tækifæri til vinnu í fyrirtækjum á sama tíma. Það er óskaplega sérkennilegt að byrja á að leggja hann af og skella svo skuldinni á atvinnulífið. Atvinnulífið hefur viljað taka í hina útréttu hönd sem fólst í stofnun vinnustaðanámssjóðs og það er ákvörðun núverandi ráðherra og ríkisstjórnarinnar að hætta við hann og slá á þá útréttu hönd.

Það er líka þannig að stefnubreyting hæstv. ráðherra gagnvart framhaldsskólunum, aðgangstakmarkanirnar í bóknáminu munu hafa áhrif á fjölbreytnina sem verður í boði í minni skólum vítt og breitt um landið í verknámi vegna þess að hinn krítíski massi skólanna rýrnar (Forseti hringir.) og versnar. Stoðþjónustan versnar. Fjölbreyttu tækifærin (Forseti hringir.) verða minni. Tækifærin til að skapa staðbundið nám í samvinnu (Forseti hringir.) við nærsamfélagið fara.