144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

staða verknáms.

[11:36]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda enn og aftur fyrir umræðuna og öðrum hv. þingmönnum fyrir þátttökuna. Jafnframt vil ég segja að mér hefur nú sjaldan brugðið jafn hrottalega í þingsal og hér áðan þegar hv. þm. Björn Valur Gíslason sagðist vera sammála mér. Það bráði nú af þegar leið á ræðuna þannig að mér fór að líða betur. Ég efast um að ég hefði sofnað í kvöld ef ég hefði verið skilinn eftir með málið svona.

Þó eru gefnar væntingar til þess að ætla að í þessu máli sé hægt að finna ágætan samhljóm. Við erum öll sammála um hversu miklu máli iðn- og verknámið skiptir. Ég var í ræðu hv. þm. Árna Páls Árnasonar gagnrýndur fyrir að vera ekki með stefnu í málinu. Nú er til þess að taka að það er starfandi vinnuhópur á mínum vegum sem fundaði í gær með samráðshópi fulltrúa 30 fagaðila, svo ég noti orð sem mér finnst ekkert allt of gott, sem koma að þessu námi. Það skiptir miklu máli að allir þeir sem hafa hér hagsmuna að gæta komi að umræðunni um það hvernig við eigum að gera þetta ef við ætlum að gera einhverjar alvörubreytingar, ef hugmyndin er ekki bara sú að setja einhverja fjármuni í þetta eða breyta smá eða aðeins snúa hér. Ef gera á gagngerar breytingar sem máli skipta um þetta nám þarf mikið og gott samráð um það og það er það sem unnið er að.

Ég er þess vegna þeirrar skoðunar að ef við nýtum núna vel tímann og það lag sem er til þess að gera slíkar breytingar geti það haft grundvallaráhrif á það hversu margir sæki síðan í þetta nám. Það þarf einhverja slíka aðgerð af því að við erum svo lengi búin að hjakka í sama farinu.

Síðan vil ég bara rétt rifja það upp að þegar kemur að fjármagni til skóla á hvern nemanda er ekki iðnnámið bara dýrara heldur eru skólarnir mjög misdýrir. Ég tek bara (Forseti hringir.) saman hér Menntaskólann á Akureyri sem fær 938 þús. kr. á nemanda samkvæmt nýja fjárlagafrumvarpinu en (Forseti hringir.) á sama tíma fær skólinn á Húsavík sem er svipað uppbyggður 1,5 (Forseti hringir.) millj. kr. á nemanda. Þetta er mjög flókið kerfi sem við búum við.