144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

opinber fjármál.

206. mál
[12:16]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir ræðuna og fagna framkomu þessa frumvarps. Ég held að það muni vinna með því, eins og ráðherra kom inn á, að fjórir fjármálaráðherrar úr þremur flokkum hafa unnið að þessu frumvarpi. Það er rétt, sem hæstv. ráðherra segir, að þetta mun krefjast hugarfarsbreytingar hvað varðar langtímahugsun bæði í stjórnkerfinu en ekki síst hjá stjórnmálamönnum. Ég vil leyfa mér að tala um að það þurfi nánast hugarfarsbyltingu en við þurfum að byrja einhvers staðar.

Það eru tvö atriði sem ég vil spyrja ráðherra út í. Annars vegar er það: Er það rétt skilið hjá mér að ekki sé fjallað um takmörk við útgjaldavexti í frumvarpinu? Mér fannst hann vera að gefa í skyn að kannski væri ástæða til þess. Ég held að takmörk við útgjaldavexti séu lykiltæki til að ná fram hugarfarsbreytingu og kemur í veg fyrir óeðlilegan vöxt ríkissjóðs í góðæri. Ég vil spyrja ráðherrann hvort hann telji ekki þörf á að þetta verði skoðað sérstaklega í fjárlaganefnd.

Hin spurningin lýtur að skuldahlutfallsreglunni sem er samkvæmt frumvarpinu 45% af vergri landsframleiðslu. Hæstv. ráðherra segir að hann telji jafnvel að það þyrfti að þrengja hana vegna sérstakra aðstæðna hér á landi. Ég vil heyra hjá ráðherra hvaða aðstæður það eru sem kalla á að íslenska ríkið geti ekki skuldsett sig jafn mikið og önnur ríki.