144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

opinber fjármál.

206. mál
[14:48]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég segi eins og hinir, ég ætla ekki að fara mjög djúpt ofan í þetta í fyrstu atrennu en þó drepa á nokkur atriði. Margt hefur komið fram í dag og gerði það líka þegar við ræddum málið síðast.

Mér sýnist samt vera töluverðar breytingar á nokkrum greinum frá því að málið var tekið fyrir í haust og þurfum við kannski að skoða það betur í fjárlaganefndinni. Ég segi eins og ég sagði í haust: Ég held að þetta sé gott frumvarp sem er kannski, eins og hefur komið fram, að hluta til vegna þess að margir hafa þar komið að. Það er leiðin til þess að ná samstöðu um svona stórt og mikið mál og verður vonandi til þess að þetta breytist.

Ég tek undir það sem hv. þingmaður á undan mér sagði, það er ekki nóg að setja einhver lög. Fyrr í dag kom fram hjá hæstv. ráðherra að það þyrfti hugarfarsbreytingu og annar þingmaður sagði að þyrfti hugarfarsbyltingu. Það er nefnilega svo að við höfum sett okkur mörg lög og reglugerðir en því miður er ekki alltaf farið eftir þeim. Sama gildir um þetta í dag, okkur hefur ekki tekist nægjanlega vel að fylgja því eftir.

Það er örugglega eitthvað hérna sem okkur gæti greint á um, en ég held að það sé ekki margt og tel að við getum lent þessu.

Ég fagna því að haft er meira samráð við sveitarfélögin af því við höfum fært mjög mikið af verkefnum yfir á sveitarfélögin og ríkið hyggst gera meira af því. Það þarf því að ramma þetta inn. Um leið er samt verið að setja ákveðna takmörkun á fjárstjórnarvald sveitarfélaga með því sem hér kemur fram, því er ekki að neita. Það er umhugsunarefni hvort rétt sé að gera það í þeim tilgangi að tryggja stöðugleika í opinberum fjármálum, því að ég held að sveitarfélögin hafi staðið sig miklu betur en ríkið og sérstaklega með tilkomu nýju laganna.

Ég tek undir það að vönduð og formföst vinna sé betri og minnki líkurnar á lausatökum á þessu. Grunngildin eru góð. Það setur sig enginn upp á móti því að reka ríki og sveitarfélög með sjálfbærni, varfærni, stöðugleika, festu og gagnsæi að leiðarljósi, en ég get alveg tekið undir með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að sjálfbærni ætti að vera enn þá mikilvægara skref en það er hér. Það er svo kannski undir okkur sem eigum að framfylgja því komið. Við þurfum auðvitað að skoða hverja einustu grein í ljósi þessara gilda. Ég held að það sé alveg ljóst.

Ég fagna því að kynjuð hagstjórn er hér formlega sett í lög af því það eru margir sem skilja ekki við hvað er átt þegar um það er talað. Þetta á líka við um sveitarfélögin af því að þetta er orðræða sem er að ná fótfestu þar og hefur þurft nokkra útskýringu. Þetta er auðvitað ekkert annað en tæki sem hefur áhrif á afkomu okkar allra, kvenna og karla, og við getum sett inn málaflokka svolítið út frá því hvar þarf jafnvægi. Og þetta gerir sveitarfélög og ríki líka meðvitaðri um það hvernig þau verja fjármunum sínum.

Í þessu frumvarpi kemur fram að leggja beri fram fjármálaáætlun að vori í formi þingsályktunartillögu og þar gefist meiri tími til umræðu um hinar stóru línur. Ég tek alveg undir að það getur og eykur líkurnar á því að með vandaðri umfjöllun sem fær að liggja yfir hásumarið náum við hugsanlega einhvers konar samkomulagi. Ég er ekkert endilega bjartsýnni en ég var til dæmis við gerð síðustu fjárlaga eða miðað við það sem birtist í núverandi fjárlögum. Ég er mjög ósammála núverandi fjárlagatillögu. Þess vegna er í rauninni frumvarp um opinber fjármál ekkert annað en pólitísk stefnumarkmið sem þar eru, hvort sem það er skattstefnan eða tekjuöflunin eða hvað það er og útgjaldaþróunin eftir málasviðunum. Við megum því ekki alveg gleyma okkur í því að halda að þetta leysi allt þótt flestir séu sáttir við það hvernig á að halda utan um þetta.

Það hefur líka verið rætt aðeins um 7. gr. þar sem sett eru fram skilyrði fyrir fjármálastefnunni varðandi heildarafkomuna, hún á að vera jákvæð og árlegur halli á ekki að vera meira en 2,5% af landsframleiðslu. Þetta eru mjög háleit markmið, góð en háleit. Talað er um að skuldirnar megi ekki fara umfram 45% af vergri landsframleiðslu og skuldahlutfallið. Ég held að þetta sé klárlega áskorunin í frumvarpinu. Ég man að það kom fram þegar við ræddum þetta síðast að greiða þyrfti niður í kringum 17 milljarða á næstu árum til þess að ná viðmiðum um skuldaþakið, fyrir utan vaxtakostnað, bara svo fólk átti sig á því um hvaða tölur er verið að tala. Þetta er eflaust hægt en kostar örugglega og ætti að takast beggja vegna frá, ekki vera aðeins á annan veginn.

Hér hefur mikið verið rætt um fjármálaráðið. Ég gerði það líka síðast af því mér finnst að það geti gætt ójafnvægis í þessu ef þingið, í krafti meiri hluta síns, getur ákveðið að einungis meiri hlutinn komi að slíku ráði. Það er ekki alveg nógu gott. Þetta er eitt af því sem ég held að þeir sem um þetta fjalla þurfi að taka fyrir, og þessu hefur verið vísað til fjárlaganefndar, svo að það sé ljóst. Ég mundi til dæmis vilja gera breytingu þarna. Svo er það hvernig nákvæmlega eigi að gera það, hvort það er eins og hv. þm. Brynhildur Pétursdóttir nefndi, að fá einhverja fagaðila, eða eins og Steingrímur J. Sigfússon nefndi, að það yrðu tveir í viðbót þar sem hugsanlega einn úr stjórn og einn úr stjórnarandstöðu kæmu að því o.s.frv. Það er eitthvað sem við þurfum að taka umræðu um. En ég held að þetta tryggi ekki aðkomu sem allir geta sætt sig við.

Mig langar einnig að ræða um fjárheimildir, þetta er á bls. 33 og 34, þar sem gert er ráð fyrir að ráðherra skilgreini málefnasvið og málaflokka að undangengnu samráði við ráðherra og að fengnu áliti reikningsskilaráðs. Svo er talað um að hluti af markmiðinu með því sé að þeir sem gegna þessu hlutverki haldi útgjöldum innan fjárheimilda og fái auknar heimildir til að stýra útgjöldum innan málaflokka og þeim aðilum verði þar af leiðandi falin aukin ábyrgð.

Ég hef örlitlar áhyggjur af því að þingmenn almennt, ekki síst stjórnarandstaðan, geti orðið svolítið vopnlaus í þessu. Mér finnst ekki gott að fylgirit verði einungis það sem er niðurbrotið, í rauninni öll málin undir málefnasviðunum og að það verði ekki lögskýringargagn. Ég er ekki sátt við þá tillögu enn þá. Ég hef áhyggjur af því. Ég held að þetta sé eitthvað sem við þurfum að fá staðfestingu á hvort stenst. Það er líka mælt fyrir um að breytingartillögur á fjárlagafrumvarpinu eigi ekki að hafa neikvæð áhrif á tekjujöfnuð ríkissjóðs. Það komu upp vangaveltur um að þetta hefði áhrif á þingsköp við síðustu umræðu. Það er ekki á hreinu enn þá hvaða skilyrði þarf að uppfylla til þess að breytingartillögurnar verði þingtækar. Þetta er eitt af því sem fjárlaganefnd þarf að leita svara við.

Það er talað um í 19. og 20. gr. að leggja skuli sérstaka áherslu á og skilgreina gæði þjónustu og þess sem veita á fjármuni til og hvernig á að ná markmiðum og að það þurfi að vera skýrir árangursmælikvarðar. Þetta er hluti af stefnumótuninni, en þetta fer allt saman fram innan ráðuneytis og innan málaflokkanna. Við komum mjög lítið að þessu sem almennir þingmenn, ef ég skil þetta rétt. Það eru nokkur atriði sem við þurfum klárlega að fara yfir.

Það kom athugasemd frá Félagi forstöðumanna ríkisstofnana síðast þar sem kom fram að talið var að skýra þyrfti betur forgangsröðun lögbundinna verkefna þegar fjárveitingar nægðu og að ákvarðanir væru í rauninni ekki á valdi forsvarsmanna vegna þess að lögum samkvæmt væru þeim falin einhver verkefni sem er svo kannski ekki hægt að fylgja eftir.

Síðan var jákvætt tekið í það að ríkisaðilar ættu að skila rökstuddum tillögum um fjárveitingar en gagnrýnt að það væru einungis þeir aðilar sem ættu að gera það en ekki aðrir og sagt að allir ríkisaðilar sem treysta á fjárveitingar á fjárlögum ættu að áætla nauðsynlega fjárþörf. Ég var að lesa þetta yfir aftur og get ekki séð að þetta sé skýrara en það var.

Ég veit að það er ekki bæði sleppt og haldið og það breytir því heldur ekki að við þingmenn höldum áfram að berjast fyrir okkar málum, hvort sem það er í kjördæmum eða málaflokkum eða einhverju slíku. Það sem stendur samt út af er að ef ég vil auka framlög til einhverrar tiltekinnar stofnunar get ég í raun ekki lagt það til að öðru leyti en því að málaflokkurinn hækkar og ég verð að treysta því að þetta verði brotið niður á það sem ég óskaði eftir. Mér finnst það pínu vont. Það má vel vera að það stuðli ekki að góðum og auknum aga að hafa það þannig áfram.

Auðvitað veit ég að það er ekki bæði sleppt og haldið í þessu og í hluta breytinganna. Það kemur líka fram að fjármálaráðherra eigi að upplýsa fjárlaganefnd um stöðu og framvindu fjármálaáætlunar og aðrir ráðherrar, eins og ég sagði. Ég held að það hafi svo sem gerst án þess að það hafi sérstaklega verið fært í lög, en það er ágætt að gera það.

Alveg í lokin langar mig að velta því upp, þótt starfandi formaður fjárlaganefndar sé ekki hér, hvernig sé með afnám markaðra tekna. Það frumvarp er hjá fjárlaganefnd. Fellur það um sjálft sig, eða hvað? Það væri áhugavert að vita.

Ég mundi vilja heyra það frá ráðherra, skýrar en það kom (Forseti hringir.) fram áðan, hverju þarf að breyta í þingsköpum.