144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

opinber fjármál.

206. mál
[16:12]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra ræddi eðlilega aðeins aftur um fjármálareglurnar og hvort þær væru vel útfærðar, skynsamar eða skynsamlegar. Reyndar eru reglurnar væntanlega annaðhvort skynsamlegar eða óskynsamlegar en ekki skynsamar sem slíkar. Mér finnst ansi mikið farið að bera á því að óvitibornum fyrirbærum sé ætlað að hafa skynsemi eða ekki skynsemi til að bera. Það erum við sem metum það og reglurnar eru hins vegar bókstafur.

Ég svara því fljótt fyrir mitt leyti og gerði það að hluta til í ræðu minni. Ég hefði að mörgu leyti viljað hafa þennan ramma heldur rýmri til að hægt væri að beita sveiflujöfnunargetu ríkisfjármálanna eða opinberra fjármála með ívið kraftmeiri hætti á báðar hliðar, og auðvitað er alltaf frjálst að gera betur, ég átta mig á því. Það er enginn sem bannar meiri afgang og hraðari niðurgreiðslu skulda eða hvað það nú er. En þetta helst stundum í hendur í hugum manna. Svona sjö ára sveiflujöfnunartímabil með sömu markmiðum um jafnvægi á því tímabili og kannski heimild til að fara í 3–3,5% halla innan eins árs á því tímabili hefði verið æskilegri rammi frá þessum sjónarhóli séð að mínu mati. En í ljósi reynslu Íslendinga og áratugina aftur í tímann litið efast ég um að við kunnum með það að fara, þannig að ég vil þá frekar kaupa öryggi í því að svigrúmið sé eitthvað takmarkað.

Ég vil nefna annað og það er sú breyting sem hefur reyndar lítið verið rædd, eignfærsla fjárfestinga og afskrift þeirra um rekstrarreikning síðar meir, sem er mikil breyting, og sjálfbærni fjárlaga og fjármála. Hvað segir hæstv. ráðherra um það að ef við ætlum virkilega að standa undir því háleita markmiði þá þurfum við líka að taka inn í áætlanir okkar til dæmis uppsafnaða fjárfestingarþörf í innviðum? Það er fleira nefnilega en framtíðarlífeyrisskuldbindingar sem þarf í raun og veru að sýna. Það er enginn vandi að skila (Forseti hringir.) hallalausum fjárlögum í nokkur ár og safna bara alfarið upp allri framtíðarfjárfestingu og öllu viðhaldi sem kemur mönnum svo í koll síðar, (Forseti hringir.) en þá er það ekki sjálfbær nálgun á fjárlögunum. Þegar að áætlunargerðinni kemur vildi ég gjarnan heyra hvað menn hugsa sér í sambandi við til dæmis það að greina og sýna (Forseti hringir.) vænta fjárfestingarþörf ríkisins.