144. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[17:02]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður dregur þá ályktun af því að ég er ósammála honum í þessu máli og hann hefur einkarétt á því að trúa á frelsi einstaklingsins að ég geri það ekki. Ég frábið mér svona málflutning. Ég held að íhaldið verði aðeins að kunna hroka sínum hóf. Halda menn að einhver ein tiltekin stjórnmálaskoðun eigi einkarétt á frelsi einstaklingsins, að við sem einstaklingar fæðumst sem frjálsbornar manneskjur og eigum rétt á frelsi til skoðana, athafna og tjáningar? Ég vísa þessu algerlega til föðurhúsanna.

Það kann að vera að við leggjum á vissum sviðum annan skilning í félagslega frelsishugtakið. Ég býst við því. Ég legg mikið upp úr því að einstaklingurinn sé frjáls hvað varðar það að geta lifað sínu lífi með reisn, búið við góða heilsu, búið í góðu samfélagi þar sem enginn er dæmdur til fátæktar og þar sem samfélagið reynir að búa til sem best og heilbrigðast umhverfi fyrir sig sjálft og þar með talið alla einstaklingana. Þetta er liður í því að búa til (Forseti hringir.) heilbrigt samfélag, frjálst, og draga úr vandamálum sem skerða frelsi einstaklingsins. (Forseti hringir.) Eða ætli það sé ekki frelsisskerðing að vera heilsulaus eða öryrki vegna ofneyslu áfengis, ef ekki bara kominn undir græna torfu (Forseti hringir.) langt fyrir aldur fram?