144. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2014.

uppbygging Vestfjarðavegar.

113. mál
[15:48]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Haraldi Benediktssyni fyrir að hefja umræðuna og hæstv. ráðherra fyrir mikla vinnu undanfarið til að finna lausn í vegasamgöngum um Vestfjarðaveg nr. 60.

Eins og hefur komið fram þá hafa átt sér stað samgöngubætur vestur á fjörðum en enn er langt í land. Þarna eru stórhættulegir vegir sem standa svæðinu fyrir þrifum og það er algerlega óásættanlegt að stundum sé ekki hægt að koma vörum og því sem á þarf að halda vestur vegna þess að vegirnir leyfa það ekki.

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að halda okkur þingmönnum Norðvesturkjördæmis upplýstum í öllu þessu máli og ég hlakka til þegar hægt verður að hefja framkvæmdir að nýjum veg þarna fyrir vestan því að svæðið á það algerlega skilið.