144. löggjafarþing — 21. fundur,  20. okt. 2014.

ADHD-teymi geðsviðs Landspítala.

247. mál
[16:28]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni þá fyrirspurn sem gerð er hér í fjórum liðum.

Fyrst er til að taka að það er rétt sem hér kemur fram að fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2015 ber með sér að ADHD-teymis Landspítalans er ekki sérstaklega getið undir einhverjum fjárlagalið. Það sama á í rauninni við um ýmsa aðra meðferð og þjónustu sem Landspítalinn veitir. Ég er sammála Landspítalastjórnendum í því efni að verkefni teymisins sé afar mikilvægt og afar brýnt og mjög gott starf er unnið og þess vegna skal ég alveg játa það að ég bjóst raunar við að þetta verkefni væri það framarlega í forgangsröðuninni hjá Landspítalanum að það hefði verið skilgreint inni í þeirri aukningu á rekstrarfé sem Landspítalinn fékk í fjárlögum ársins 2014 og sá grunnur er raunar varinn í fjárlagafrumvarpinu fyrir næsta ár.

Það er hárrétt sem hv. þingmaður segir að þetta verkefni er fjármagnað af safnliðum í rekstri ráðuneytisins og í mínum huga á það ekki að vinnast með slíkum hætti, að einstök verkefni séu fjármögnuð af einhverjum tilteknum lið sem eru vistuð á viðkomandi ríkisstofnun. Við höfum undanfarið verið að ræða það í ráðuneytinu með hvaða hætti við getum samræmt betur þær aðgerðir sem unnar eru í þágu þeirra sem greinast með ADHD. Ljóst er að víða í kerfinu er varið töluverðum fjármunum í þann málaflokk og ég tel alveg koma til greina að semja við Landspítalann sérstaklega um þá þjónustu sem ADHD-teyminu er ætlað að inna af hendi.

Fylgst hefur verið með störfum ADHD-teymisins alveg frá því að það var sett á laggirnar og af þeirri einföldu ástæðu að það úrræði er talið skipta mjög miklu máli fyrir þá einstaklinga og fjölskyldur sem undir þetta falla og ekki síður samfélagið í heild. Til að geta fylgst betur með þessu fól ég landlæknisembættinu í apríl á þessu ári að funda sérstaklega með ADHD-teyminu og meta ýmsa þætti sem gefa vísbendingar um árangur af starfi þess. Þá hef ég líka óskað eftir því við landlækni og Sjúkratryggingar Íslands að samræma betur eftirlit gagnvart lyfjaávísunum einstakra lækna. Í því starfi hefur komið í ljós að sögn þessara tveggja stofnana lagalegar hindranir sem varða Persónuvernd sem verið er að skoða núna af starfsfólki ráðuneytisins þessa dagana.

Þegar spurt er hvaða meðferðarúrræði muni koma í stað þeirrar þjónustu sem teymið hefur veitt þá er svarið í þeim efnum það að í ráðuneytinu hefur á umliðnum missirum verið unnið að aðgerðum til að bæta líðan og meðferð þeirra sjúklinga sem glíma við ADHD og einnig að reyna að stemma stigu við misnotkun á methylfenidat-lyfjunum. Ein þeirra aðgerða sem í þessu skyni hefur verið nýtt var að nota þá sérstöku sérfræðiþekkingu sem starfsmenn á geðsviði Landspítalans búa yfir. Ekki hafa verið uppi nein önnur áform og því ekki skipulögð önnur slík sérstök þjónusta annars staðar ef ADHD-teymið sér sér ekki fært að sinna þessu hlutverki áfram.

Loks vil ég nefna gagnvart síðustu spurningunni að ekki liggur fyrir og ekki hefur verið lagt mat á það hvaða kostnaðaráhrif það hefði í för með sér ef ADHD-teymið væri ekki starfandi. Það er einfaldlega gert ráð fyrir að sú starfsemi haldi áfram en nákvæmlega hvernig eða í hvaða formi get ég ekki svarað neinu til um á þessari stundu. En líka vegna þess að hv. þingmaður nefndi það undir lok ræðu sinnar þá umræðu um misnotkunina í þessum efnum þá er sem betur fer málum alltaf að fleygja fram og nú er að verða til nýr lyfjagagnagrunnur með aðgengi lækna þar sem betur er hægt að fylgjast með í rauntíma hvernig læknar ávísa lyfjum í þessum lyfjaflokki.