144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

sérhæfð þjónustumiðstöð á sviði heilbrigðis- og félagsþjónustu.

257. mál
[17:18]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Á bls. 9 í greinargerðinni kemur fram hvernig samráðinu var háttað. Væntanlega er hv. þingmaður að vísa til umfjöllunar DV um þessa sameiningu. Í sambandi við það sem kom fram í máli formanns Blindrafélagsins þá lýsti ég því mjög vel að forsenda mín varðandi þessa sameiningu hefði aldrei verið að draga saman í rekstri þessara stofnana heldur að nota sameininguna til þess að efla enn frekar starfsemina. Fram kom að á þeirri forsendu væri Blindrafélagið fylgjandi því að fara í þetta verkefni. Blindrafélagið hefur líka lagt áherslu á það að sameiningin eigi ekki að leiða til lakari þjónustu við þá sem Þjónustu- og þekkingarmiðstöðin hefur verið að sinna heldur að efla þjónustustigið hjá Heyrnar- og talmeinastöðinni og Greiningar- og ráðgjafarstöðinni.

Það er mjög mikil ánægja með þjónustuna sem fólk hefur fengið hjá Þjónustu- og þekkingarmiðstöðinni, en það mætti svo sannarlega bæta hana hjá hinum tveimur stofnunum. Það er von okkar að með þessari sameiningu verði nákvæmlega hægt að gera það svo að fólk með þá skertu færni sem ég taldi upp geti treyst því að það fái sambærilega þjónustu óháð því hver fötlun þess er.

Hvað varðar athugasemdir sem komu fram frá forstöðumanni Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins þá hefur ráðuneytið haft mjög víðtækt samráð við alla forstöðumennina, líka við forstöðumann Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins og tekið hefur verið tillit til þeirra athugasemda sem viðkomandi hafði. Það var ástæða fyrir því að ég kom t.d. ekki fram með þetta frumvarp í vor, heldur settum við það í endurnýjað umsagnarferli og gerðum ákveðnar breytingar á því. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef og þeim fundum sem ég hef átt með viðkomandi forstöðumönnum og starfsmönnum ráðuneytisins þá eru menn sáttir við frumvarpið eins og það er lagt fram hér.