144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

sérhæfð þjónustumiðstöð á sviði heilbrigðis- og félagsþjónustu.

257. mál
[17:20]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Einn af þeim aðilum sem gerði athugasemdir við frumvarpsdrögin var umboðsmaður barna. Í umsögn umboðsmanns má sjá áhyggjur af því að ekki sé nægilega miðað við þroska barna í frumvarpinu og í fyrirhugaðri vinnu, enda kom fram og er rétt að fyrirhugað er að taka þjónustu við fullorðna með einhverfu og alvarlegar þroskaraskanir inn í þetta kerfi í þrepum.

Umboðsmaður barna benti á að í upphaflegu drögum hefði verið gert ráð fyrir möguleikum á samvinnu við leikskóla og grunnskóla. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvernig fyrirhugað er að taka á samstarfi við leik-, grunn- og framhaldsskóla. Það er auðvitað ljóst að börn sem enn eru að þroskast þurfa miklu meiri þjónustu og annars konar þjónustu en fullorðnir. Þau þurfa líka snemmtæka þjónustu. Það þarf að grípa fljótt inn í. Þeir sem vinna með börnum í leikskólum, grunnskólum og jafnvel í framhaldsskólum þekkja mjög vel og betur en margur annar hvað bjátar á. Þess vegna er mikilvægt til þess að eftirfylgni geti orðið í skólanum að hafa samstarf.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvernig brugðist hefur verið við athugasemdum umboðsmanns barna um þessi atriði.