144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

30. mál
[22:22]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir svarið. Við deilum þessari skoðun.

Ég vil þó vekja athygli á því sem stendur á bls. 2, að við vinnslu frumvarpsdraganna, með leyfi forseta, „horfði Kauphöll Íslands til Danmerkur þar sem lífeyrissjóðum er heimilað að fjárfesta í hlutabréfum sem verslað er með á markaðstorgi fjármálagerninga með sömu skilyrðum“. Í þeim gögnum sem ég hef kynnt mér varðandi þetta mál og áður þá skora Danir í alþjóðlegum samanburði mjög hátt með lífeyrissjóðakerfi sitt. Það væri gaman að fá álit hv. þm. Helga Hjörvars á því, hvort hann þekki það, því að hann talaði í ræðu sinni af mikilli reynslu sem fyrrverandi formaður efnahags- og viðskiptanefndar og gerþekkir þessi mál.

Að öðru leyti vil ég taka undir orð hans. Það er mjög mikilvægt að frumvarpið fái vandaða umfjöllun og að við köllum til umsagnaraðila. Ég held að þetta sé mjög gott mál að því leytinu til, eins ég kom inn á í ræðu minni um samfélagslega ábyrgð, að hagkerfi okkar er mikið til byggt upp af smærri og meðalstórum fyrirtækjum. Forsendur ávöxtunar lífeyrissjóðanna hanga því saman við það að hér séu skilyrði hagvaxtar um langa framtíð. Gott væri ef hv. þm. Helgi Hjörvar mundi aðeins koma inn á forsendur hagvaxtar og samfélagslega ábyrgð um leið og við höfum að sjálfsögðu augun á boltanum.