144. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

240. mál
[15:47]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Af því að þessi breytingartillaga hljómar ekki mjög skýrt á því blaði sem hér liggur fyrir vil ég útskýra að hún snýst um að greiðslujöfnunarreikningurinn verði tekinn út fyrir sviga. Okkur finnst aðgerðin yfirleitt frekar illa fram sett eins og hér hefur komið fram og margt annað sem við hefðum viljað breyta, m.a. kröfum sem hafa glatað veðrétti. Það var búið að semja við fjármálastofnanirnar um að færa aftur fyrir og geyma og hugsanlega afskrifa á einhverjum tímapunkti. Þess vegna finnst okkur til bóta þótt ekki væri nema að tekið yrði frá og fjármálastofnanirnar fengju ekki allt greitt upp í topp áður en loksins færi að sjá í höfuðstól, eins og reyndar var farið mjög ítarlega yfir hér í gær í mörgum liðum, hvenær færi að greiðast inn á höfuðstólinn sem slíkan.

Þrátt fyrir að greiðslujöfnunarreikningurinn sé vissulega hluti af því var, eins og ég segi, búið að samþykkja að geyma það og hugsanlega afskrifa.

Virðulegi forseti. Ég vona að þingheimur sjái sóma sinn í að samþykkja breytingartillöguna.