144. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2014.

fjármögnun byggingar nýs Landspítala.

25. mál
[16:28]
Horfa

Flm. (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er hið góða við þessa umræðu að fram koma andmæli og maður fær spurningar. Það er hægt að svara því að takmörkuðu leyti í stuttu andsvari en ég kemst vonandi betur í það á eftir. Ég skora á hv. þingmann að koma í umræðuna hér á eftir þannig að við getum jafnvel farið í andsvar og spurt hann út úr.

Um reiknaðan sparnað sem verður af því að fara með allt á einn stað er norsk úttekt sem gerð var og ég hika ekki við að halda því fram að hún stenst. Gerum við okkur ekki grein fyrir því að tvöföld sjúkrastarfsemi, við Hringbraut og í Fossvogi, er dýr? Við núverandi aðstæður rekum við tvær rannsóknardeildir, tvær röntgendeildir, tvær skurðstofueiningar, gjörgæsludeildir og bráðamóttökur eru fimm talsins.

Hæstv. forseti. Ef þetta fer allt á einn stað er ekki alveg augljóst að út úr því kemur rekstrarlegur ávinningur og hagnaður og hagræði, bæði í peningum og nýtingu, og síðast en ekki síst í nýtingu á tækjum og starfsmönnum? Þetta er veigamikið atriði.

Ég spyr hvort hv. þingmaður, sem hefur fjallað um rekstur og annað slíkt, ég hef lesið það, sjái ekki þann ávinning sem hér kemur fram. Það er þessi ávinningur sem mundi nýtast spítalanum við það frumvarp sem ríkisstjórnin ætlar að færa fram um breytingar á færslu ríkisreiknings þannig að ekki verði um að ræða auknar skuldir ríkissjóðs, heldur tekur Landspítalinn lánið, afskrifar, nýtir afskriftir og greiðir afborganir af láninu. Það er sú leið sem hæstv. fjármálaráðherra og núverandi ríkisstjórnarflokkar eru að koma með til þings. Þetta er nýtt. Þetta er það sem gert er í mörgum þjóðlöndum hér í kringum okkur sem við berum okkur oft saman við.