144. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2014.

fjármögnun byggingar nýs Landspítala.

25. mál
[17:05]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Samningarnir um Landsbankann voru nú ekki verri en það, þótt margt ljótt hafi verið um þá talað, að ríkið fékk gefins 18% í Landsbankanum núna í fyrra og færði hann inn í bækur sínar á ákaflega lágu gengi, þannig að bókhaldslega mun myndast talsverður söluhagnaður þegar eða ef selt verður eitthvað í Landsbankanum, ef einhverjir vilja eiga hann á móti ríkinu á einhverjum næstu árum. Það er vissulega ein ágæt leið.

Það verður fróðlegt að sjá þegar frumvarpið um opinber fjármál verður orðið að veruleika, þá verða stofnfjárfestingar ríkisins af þessu tagi í öðrum bókhaldslegum veruleika. Þá verður fjárfestingin eignfærð og síðan afskrifuð á löngum tíma, sem er að mörgu leyti miklu eðlilegra bókhald. Það ættu menn að hafa í huga í sambandi við hræðsluna við að ríkið ráðist í slíkar framkvæmdir. Við erum ekki að tala um sokkinn kostnað, rekstrarútgjöld sem gufa upp eftir árið, við erum að tala um fjárfestingu, gríðarlega verðmæta og mikilvæga fjárfestingu fyrir þjóðina. (Gripið fram í.)

Ég ætla að minna aftur á það sem ég sagði í ræðu minni; tölum okkur aðeins niður á jörðina, verum ekki svona upptekin af því að þetta verkefni sé svo óskaplega stórt og óviðráðanlegt. Ef við deilum því á ein fimm til sjö ár þá eru þetta 1–1,2, 1,3% af veltu fjárlaga hvers árs, 0,3–0,4% af vergri landsframleiðslu.

Úr því að menn gátu staurblankir byggt gamla Landspítalann, stórvirki þess tíma á fyrstu áratugum síðustu aldar og höfðu sig fram úr því, þá er það ekki alveg frambærilegt að reyna að telja þjóðinni trú um að við höfum ekki efni á því í dag að endurnýja þann húsakost. Það er auðvitað ekki þannig. Svo illa erum við sem betur fer ekki stödd sem þjóð. Við eigum að hrista af okkur slenið í þessum efnum og drífa málið í gang.