144. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2014.

fjármögnun byggingar nýs Landspítala.

25. mál
[18:18]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Kristjáni L. Möller fyrir þá þrautseigju sem hann hefur sýnt í málinu. Ég held að umræðan um þessa tillögu núna og sömuleiðis þá tillögu sem hann flutti í fyrra hafi orðið til þess að breyta töluvert afstöðu þingsins til málsins.

Því var haldið fram hér fyrr í dag að nánast allir flokkar hefðu verið sammála um að það væri verkefni sem biði nýs þings að ákveða byggingu nýs Landspítala. Það reyndist nú ekki vera svo þegar við komum til þings. Nýir landsfeður sáu þá alls konar annmarka á þeim hugmyndum, ekki síst að það væri, eins og alltaf er uppi á góðu heimili sem horfir til framtíðar, töluverður fjárskortur. Þá blasti við sú staðreynd að mikilvægir þungavigtarráðherrar í ríkisstjórninni sögðu hreint út að vegna þess hvernig útlit væri væru engin loforð uppi um að stefnt yrði að því að byrja á byggingu nýs Landspítala eða ljúka ákvörðun á þessu kjörtímabili.

Það sem þessi umræða hefur hins vegar leitt fram er að þeir sem voru efasemdarmenn og töldu að við hefðum ekki efni á þessu hafa skipt um skoðun. Það sem einkennir umræðuna í dag er að menn spyrja ekki lengur hvort heldur hvernig og þá hvenær.

Eitt af því sem ég þakka hv. þm. Kristjáni L. Möller fyrir er að hafa einmitt sýnt fram á að hægt er að áfangaskipta þessu mikla verki, sem í heild á að kosta 80 milljarða, með þeim hætti að tvær mikilvægustu byggingarnar eða einingarnar, þ.e. meðferðarkjarninn og rannsóknarkjarninn, yrðu reistar á fimm árum og það mundi kosta 45–50 milljarða. Það er vel kleifur hjalli, það er ekki hægt að segja annað. Þess vegna skiptir máli að menn komist að niðurstöðu.

Hugsanlega hefur umræðunni fleytt fram með þeim hætti að við erum ekki lengur að ræða hvaða röksemdir það eru sem hníga að því að við eigum að taka þessa ákvörðun heldur hvernig best sé að fjármagna hana. Það hafa ýmsar hugmyndir komið fram í umræðunni. Menn hafa lýst ýmsum viðhorfum. Sumir vilja gera það með sölu eigna, aðrir vilja bara gera það beint af fjárlögum. Það eru ýmsar leiðir.

Í fyrsta lagi væri hægt að fara þá leið að ríkið hæfi skuldabréfaútgáfu til þess að þjóðin sjálf gæti fjármagnað þetta og þá, líkt og þegar þjóðin fjármagnaði hringveginn, tæki hún upp á því að geyma ríkisskuldabréf eins og afar okkar og ömmur gerðu undir teppinu og ég man svo rækilega og vel eftir.

Í öðru lagi væri hægt að eyrnamerkja tiltekna liði á fjárlögum sem ættu að renna til verksins.

Það eru miklar deilur um veiðigjöld. Ég sé ekkert að því að þjóðin reyndi að sameinast um að hluti veiðigjalds færi til dæmis til þess að kosta byggingu þjóðarspítalans.

Í þriðja lagi er hægt að fara þá leið að selja eignir ríkisins og nota það til þess að byggja spítalann.

Í fjórða lagi væri hægt að fjármagna þetta beint af fjárlögum.

Hv. þm. Björt Ólafsdóttir hugsaði hér upphátt og velti því fyrir sér hvað varð um lífeyrissjóðsleiðina. Menn ræddu það að lífeyrissjóðirnir gætu í senn hjálpað umbjóðendum sínum, þjóðinni allri, en líka fundið góða ávöxtun fyrir fé sitt með því að fjármagna byggingu nýs spítala. Það má segja að breyting á lögum um fjárreiður, sem þingið er að fjalla um og mér sýnist að allir þingflokkar séu sammála um, kynni að aðstoða við þá leið vegna þess að hún gerir það fært að eignfæra stofnfjárfestingar sem síðan væri hægt að afskrifa á löngum tíma. Það er ekki hægt í dag og þetta er einn af þeim tæknilegu annmörkum sem gerir hverri ríkisstjórn mjög erfitt fyrir að fara í framkvæmd af þessu tagi, sem þó er hægt að sýna fram á að væri arðbær.

Það eru því ýmsar leiðir. Ég hef talað fyrir svokallaðri blandaðri leið. Í umræðunni í fyrra kom fram af hálfu VG að sá ágæti stjórnmálaflokkur taldi langfarsælast að fara þá leið að fjármagna þetta beint af fjárlögum. Þá kom hæstv. fjármálaráðherra og kvaðst ekki vilja það, það kæmi ekki til greina. Hann vildi fara leið eignasölunnar. En ég tel að við getum farið bil beggja og gert hvort tveggja. Það er eitt af því sem nefndin, sem er andlag þeirrar þingsályktunartillögu sem við ræðum í dag, á að finna út. Eins og ég hef sagt áður í samræðum yfir þingpúlt við hv. þm. Björt Ólafsdóttur er ég þeirrar skoðunar að það sé einmitt þingsins að komast að þessari niðurstöðu. Það bæði fríar landsfeður og -mæður frá því að þurfa að takast á um málið, og við vitum bæði tvö og þingheimur að það er ekki full sátt um hvaða leið á að fara, en hitt skiptir meira máli fyrir mig að með því fetum við okkur lengra á þeirri braut að þingið taki til sín meira sjálfstæði, verði meira afgerandi. Og sem betur fer höfum við séð það eftir síðustu kosningar, líka í tíð síðustu ríkisstjórnar, að frá 2008 hefur þingið í vaxandi mæli verið að taka sér aukið vald. Þannig á það að vera. Þegar um er að ræða það sem átti að vera þjóðarstolt, eitt það mikilvægasta sem blasir við fyrir heill þjóðarinnar, byggingu nýs spítala, er sjálfsagt að það sé þingið sem komi að því.

Herra forseti. Menn hafa með ýmsum hætti velt upp þeim röksemdum sem styðja það að við tökum þessa ákvörðun sem fyrst. Ég held að flestir séu komnir á þá skoðun að ekki sé eftir neinu að bíða nema að finna úrlausn á fjármögnuninni. Það er hægt að gera það. Það var reiknað út fyrir nokkrum árum að líkast til mundi það að sameina alla starfsemina á einn stað skila arðsemi af fjárfestingunni sem í það fer sem mætti reikna upp á 2,6–3 milljarða. Ætli það sé ekki orðið snöggtum hærra á núgildandi verðlagi, ætli það megi ekki setja það á 3 milljarða á ári? Menn hafa í umræðum á þinginu dregið það í efa, m.a. hæstv. heilbrigðisráðherra, en maður þarf að skoða þær staðreyndir sem hafa komið fram, að húsakostur Landspítalans í dag er dreifður á 17 staði, yfir 100 hús, 160 þúsund fermetrar. Allir þeir snúningar sem það kallar á, það hefur komið fram í umræðunni að á hverju ári þarf níu þúsund ferðalög á milli spítalanna tveggja, Landspítalans og hluta hans í Fossvogi. Ég veit ekki hvort það hefur komið fram í umræðunni að það þarf þar að auki 25 þúsund aðrar ferðir þarna á milli með sýni o.s.frv. Á hverjum degi eru farnar ellefu ferðir með tól og tæki sem þarf að dauðhreinsa uppi á Tunguhálsi. Með auðveldum hugarreikningi er hægt að sjá að það eru fast að því fjögur þúsund ferðir á ári. Allt kostar það mikla peninga.

Það hefur sömuleiðis komið fram að ekki er hægt að kaupa tiltekin tæki vegna þess að núverandi húsakynni rúma þau ekki, þau hafa ekki burðarþol. Það er ekki einu sinni hægt að koma á laggir almennilegri loftræstingu. Í þeim gögnum sem ég hef lesið kemur fram að á hverri klukkustund þarf að flytja milljón rúmmetra af lofti út úr spítalanum til þess að halda réttri loftræstingu. Það er eins og meðalrennsli Þjórsár. Það er ekki hægt vegna þess að lofthæðin er ekki nógu mikil.

Það kom fram í umræðu í dag að 8% af sjúklingum Landspítalans sýkjast af sóttkveikjum sem eru landlægar þar. Ég held að í þeim gögnum sem ég hef lesið komi fram að hægt sé að minnka það niður í 2–3% á nýjum spítala. Það þýðir að kannski er hægt að koma í veg fyrir að fast að 5% af þeim sem gista Landspítalann verði veikir vegna sóttkveikja sem eru ónæmar og er mjög erfitt að ráða niðurlögum á. Þetta eru lífsgæði fyrir viðkomandi, þetta er líka sparnaður fyrir samfélagið.

Það er því ákaflega margt sem hnígur að því að þetta sé hagkvæm fjárfesting, það sé hægt að kljúfa hana og sömuleiðis að það sé eftir litlu að bíða.

Ég sé að fulltrúi Sjálfstæðisflokksins sem ætlar að taka þátt í þessari umræðu er mér alveg sammála. Ég bíð eftir því að hann komi hingað og lýsi því yfir. Hv. þm. Óli Björn Kárason, stóllinn er þinn.