144. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2014.

stytting tímabils atvinnuleysisbóta.

[10:45]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið en ég tók auðvitað eftir því að hún svaraði því ekki hvernig ætti að skera meira niður í velferðarráðuneytinu, í félagsmálaráðuneytinu, vegna þess að það verður minni sparnaður af þessari fyrirhuguðu aðgerð.

Það er ekki aðeins verið að stytta bótatímann, það er verið að auka á vanda þessa hóps með niðurskurði hjá Vinnumálastofnun og með niðurskurði á Starfsendurhæfingarsjóði. Það er því greinilega ekki á dagskrá hjá ríkisstjórninni að auka virkniúrræðin fyrir þennan hóp, því miður. Þetta mun setja þetta fólk úr erfiðri stöðu í vonlausa stöðu eins og var fullyrt við okkur á fundi velferðarnefndar í gær.

Herra forseti. Ég vil hvetja hæstv. ráðherra til þess að auka virkniúrræðin fyrst, setja meiri peninga á næsta ári í virkniúrræði í stað þeirrar sveltistefnu sem hér er boðuð og athuga hvort (Forseti hringir.) þá dragi ekki úr kostnaði og útgreiðslum úr Atvinnuleysistryggingasjóði.