144. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2014.

kostnaður vegna gjaldþrotaskipta.

[11:04]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Hvað varðar seinni spurninguna í fyrri hlutanum hjá hv. þingmanni, um það af hverju reglugerðin hafi ekki verið sett, þá höfum verið að undirbúa setningu reglugerðar og áætlað er að hún verði sett fyrir lok árs 2014. Við höfum líka verið að huga að öðrum reglugerðum sem snúa að þeim lögum sem umboðsmaður skuldara vinnur eftir og vonandi munum við sjá þær birtast um svipað leyti.

Ég tel, og sagði það strax og ég tók við embætti, að mikilvægt sé að fara yfir reynsluna af starfsemi umboðsmanns skuldara og því lagaumhverfi sem honum var sett. Könnunin sem umboðsmaður skuldara fór í er eitt af þeim gögnum sem við ætlum okkur að nota til þess að fara yfir hvað það er sem þarf að lagfæra og hvað það er sem er í lagi í lögunum.

Það hefur líka verið þannig að töluverður biðtími hefur verið eftir því að fá úrskurði frá úrskurðarnefnd um greiðsluaðlögunarmál. Við höfum verið að taka á því og erum núna að fá auknar fjárveitingar í það og erum að fara í sameiningar á (Forseti hringir.) úrskurðarnefndum. Þessir úrskurðir eru líka mjög mikilvægar leiðbeiningar (Forseti hringir.) fyrir okkur þegar við förum í hvað það er sem við þurfum að breyta í lögunum til þess að (Forseti hringir.) bæta þetta. En ég tel mjög mikilvægt að umboðsmaður skuldara verði til staðar til framtíðar.