144. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2014.

visthönnun vöru sem notar orku.

98. mál
[11:19]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Sjaldan geri ég athugasemdir við stjórn þessa mikla Salómons sem situr í stóli forseta. Ég verð hins vegar að segja að mér finnst það dálítið erfitt að hér kemur hv. þm. Frosti Sigurjónsson með mjög málefnalega og réttmæta athugasemd við mál sem hefur áður verið deilt hart á bæði af honum og mér í þessum sal og þá er framsögumaður nefndarálitsins ekki við til að svara fyrirspurn. Ég hefði talið að það væri þá í lagi að gera hlé á þinginu á meðan einhver væri fundinn sem getur svarað fyrir þetta mál. Ég sé að vísu að hæstv. iðnaðarráðherra situr hér á ráðherrabekk og gæti hugsanlega svarað.

Ég vil hins vegar koma hér til þess að taka undir með hv. þm. Frosta Sigurjónssyni enn einu sinni. Enginn sakar mig um að vera óhóflega andsnúinn Evrópusambandinu, margt gott kemur þaðan. Það er ljóst að Evrópusambandið hefur haft frumkvæði að margvíslegri neytendavernd á Íslandi og sömuleiðis hefur það líka rutt brautina í orkusparnaði og umhverfisvernd. Það breytir engu um það að ég er hjartanlega sammála því sem hv. þingmaður segir í ræðu sinni að þau viðurlög sem eru partur af þessu máli eru út úr öllu korti. Ef hv. þingmaður mundi leggja til breytingartillögu um að lækka þetta niður í 1/10 af því sem er mundi ég styðja hana. Ég tel sem sagt allt í lagi að hafa viðurlög við brotum á reglum sem verið er að samþykkja en þau verða að vera hlutfallsleg og í samræmi við umfang málsins.

Ég lít svo á að sá reglupakki sem þetta mál tengist miði fyrst og fremst að því, a.m.k. er okkur á Íslandi varðar sem búum við allt öðruvísi orkuaðstæður en í Evrópu, að beina mönnum í rétta átt, vekja eftirtekt á málinu og hnika mönnum í átt að því að draga úr sóun orku. Ég er þeirrar skoðunar að við sem höfum gnótt endurnýjanlegrar orku eigum líka að fara sparlega með hana. En með þessum viðurlögum, sem eru hálfrar milljón kr. dagsektir — það er ekki hægt að kalla það annað en, með góðu leyfi forseta, svo ég leyfi mér að sletta, „bureaucracy gone wild“. (Gripið fram í: …íslenska.)

Með leyfi forseta, sem leyfði mér það og hefur ekki skammað mig. — (Gripið fram í: Hann er ekki búinn að …) Ég þori ekki einu sinni að segja að þetta hafi verið „freudian slip“ hjá mér, það má ekki heldur, með leyfi forseta. En ég tek undir með hv. þingmanni. Eitt er nú að láta yfir sig ganga alls konar reglugerðir frá ESB og hafa í þeirri stöðu sem við erum gagnvart því sambandi ákaflega lítil tækifæri til þess að hafa áhrif á þær, en herra trúr, að láta þetta yfir sig ganga möglunarlaust eins og allur þingheimur virðist ætla að gera finnst mér fullmikið. Og hvað með þá ágætu þingmenn sem hér hafa haldið langar ræður þannig að jafnvel ég hef staðið á öndinni yfir snilld þeirra síðustu fjögur árin á síðasta kjörtímabili um hvað skrifræðið er að taka völdin af okkur, hið evrópska skrifræði? Ætlar það lið, eins og t.d. fyrrverandi formaður Heimssýnar, hv. þm. Ásmundur Einar Daðason, að sitja þegjandi undir þessu og kokgleypa þessa vitleysu? Ég ætla ekki að gera það.

Það verður að vera samkvæmni í því sem menn segja og gera. Ég hef stutt Evrópusambandið en ég hef líka gagnrýnt ákveðið skrifræði þar. Þetta dæmi sem hv. þm. Frosti Sigurjónsson á hrós skilið fyrir að hafa vakið athygli þingheims á er bara galið. Ég lýsi því enn og aftur yfir að ef hv. þingmaður leggur fram breytingartillögu um að færa dagsektirnar niður í 50 þúsund kall mun ég styðja það.

Nú sé ég það að hv. framsögumaður málsins er kominn í salinn. Hann getur þá kannski svarað fyrir þessa vitleysu og hvernig á því stendur að sú nefnd sem við höfum haft mikið traust á þegar kemur að atvinnumálum skuli ekki einu sinni hafa farið í málið og rakið það upp og reynt síðan að tjasla saman með öðrum hætti. Það er til vansa fyrir þingið að ætla að afgreiða þetta athugasemdalaust og ætla ég þó engar athugasemdir að gera við annað í máli í hv. þingmanns. En þó kom fram að nefndin, eins og ég skildi ræðu hv. þingmanns, er meira að segja að teygja þetta út yfir víðara svið.

Hvernig er þetta eiginlega, herra forseti, er þá ekki búið að setja hlutina algjörlega á haus þegar ég er kominn hingað til þess að verja Ísland gegn ofríki framsóknarmanna sem hér eru að brjóta út jaðar akurlendis Evrópusambandsins? Fyrr má nú rota en dauðrota.