144. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2014.

visthönnun vöru sem notar orku.

98. mál
[11:40]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir áhugaverðar umræður um málið. Ég vona að nefndin taki það til skoðunar milli 2. og 3. umr. Ég hvet nefndina til þess en að öðrum kosti mun ég flytja breytingartillögu sem gefur þá kost á því að ræða þetta nánar.

Hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson missti því miður af andsvari mínu, en ég vék ekki að því að það ætti að umgangast orkuna af léttúð eða sólunda henni á nokkurn einasta hátt. Það er ekki það sem mér gengur til með því að leggja til að refsiramminn sé í samræmi við tilefnið.

Það er staðreynd að í Evrópusambandinu er orka miklu dýrari en hér og þar er þess vegna miklu mikilvægara að fjárfesta í orkusparandi einangrunarefnum og slíku því að það borgar sig. En þegar orkan er tíu sinnum ódýrari til húshitunar, eins og er hérna þar sem við erum með hitaveitu, þá borgar sig aldrei að fara út í allan þann kostnað að einangra með 20% þykkari einangrun. Það eina sem gerist er að fasteignaverð hækkar og fólk þarf að borga meira fyrir fasteignir. Fólk nær aldrei að spara það til baka og það sparar engan útblástur gróðurhúsalofttegunda. Í Evrópusambandinu er það hins vegar alveg fyllilega réttlætanlegt.

Það er líka annað sem ég vil vekja athygli á að þetta er ekki krafa Evrópusambandsins, mér var kunnugt um það, og ég skil ekki hvers vegna íslensk stjórnvöld vilja setja dagsektir upp á 0,5 millj. kr. eða 0–0,5 millj. kr. Af hverju vill þingmaðurinn þá ekki hafa þetta 0–5 millj. kr. á dag? Getur hann svarað því?