144. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2014.

sala fasteigna og skipa.

208. mál
[12:08]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir kynningu á því frumvarpi sem hér liggur fyrir. Ég er með nokkrar vangaveltur varðandi þetta mál. Mig langar fyrst að heyra hvort samráð hafi verið haft við Félag fasteignasala um samningu þessa frumvarps. Eins og hún kom inn á þá eru kaup á fasteignum oft stærsta fjárfesting hvers einstaklings og þess vegna liggur mikið undir.

Í frumvarpinu koma fram skilyrði til löggildingar í b-lið 3. gr., að viðkomandi þurfi að vera lögráða og hafi „aldrei orðið að sæta því að bú hans sé tekið til gjaldþrotaskipta, eða hann sviptur réttindum til starfa sem fasteignasali ótímabundið“. Síðan kemur síðar í 3. gr. að það megi víkja frá þessu skilyrði að fenginni umsögn eftirlitsnefndar fasteignasala ef umsækjandi hafi haft forræði á fé sínu að minnsta kosti þrjú undanfarandi ár.

Ég bið hæstv. ráðherra að útskýra betur breytingarnar frá því sem nú er. Óttast hún ekki að við séum að opna þarna leið aftur inn hjá aðilum sem hafa ekki verið nógu varkárir í fjármálum og eru kannski ekki traustsins verðir að sinna svona veigamiklum viðskiptum?

Síðan þetta varðandi skaðabæturnar. Breytast þær með einhverjum hætti í þessu frumvarpi frá því sem nú er?