144. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2014.

ríkisendurskoðandi og endurskoðun ríkisreikninga.

307. mál
[12:44]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu og hann kom inn á margt sem ég get tekið undir. Hitt virðumst við vera ósammála um hvort ríkisendurskoðandi þurfi að hafa löggildingu eða ekki. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann telji ekki hættu á því í svo litlu landi eins og Íslandi að sú krafa þrengi umsóknarhópinn. Eins og hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir kom inn á erum við í raun að tala allt að því um hóp karla. Ég vil líka spyrja hvort ekki beri að horfa á það sem önnur lönd hafa gert. Ekkert þeirra ríkja sem við berum okkur saman við gerir þessa kröfu, væntanlega vegna þess að menn telja að það þrengi of mikið umsóknarhópinn. Þetta er vandasamt embætti og við viljum fá hæfustu manneskjuna í það. Ef til vill geta lögfræðingar eða hagfræðingar sinnt því. Sá sem var ríkisendurskoðandi í Danmörku áður en sú sem nú sinnir embættinu tók við var hagfræðingur, sem dæmi. Menn hafa því treyst fólki úr ýmsum starfsstéttum fyrir þessu mikilvæga embætti. Ég velti fyrir mér af hverju við gerum það ekki líka, sérstaklega í landi þar sem við erum svo fá að við erum oft að berjast við að fá jafnvel hæfa einstaklinga yfir höfuð í ákveðin störf. Nú er það auðvitað ekki þannig að ríkisendurskoðandi liggi sjálfur yfir ríkisreikningnum. Það er hópur af fólki inni á stofnuninni sem sinnir því.

Eins og hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir kom inn á er stjórnsýslusviðið líka mjög mikilvægt. Þá veltir maður fyrir sér hvort gera eigi þá kröfu að viðkomandi sé beinlínis stjórnsýslufræðingur. Það er ekki síður mikilvægt svið innan Ríkisendurskoðunar.

Þannig að mig langar að fá smáumræðu um þetta við hv. þingmann því ég met skoðanir hans mikils, ég vil gjarnan ræða þær frekar.