144. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2014.

fjárhagsstaða RÚV.

[14:39]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. málshefjanda fyrir umræðuna og öðrum hv. þingmönnum fyrir þeirra framlag hér. Ég tel að hér hafi farið fram ágæt og uppbyggileg umræða um þetta mikilvæga mál.

Ég vil nefna að nauðsynlegt er að hafa í huga að þessi niðurskurður og niðurskurðarkrafa á Ríkisútvarpið hefur staðið nokkuð lengi. Það er rétt að taka það til að frá árinu 2007 hefur verið hagrætt mjög mikið í rekstri Ríkisútvarpsins og starfsmönnum hefur þar fækkað úr 340 í 235 sem er umtalsverð fækkun. Það er rétt að hafa það í huga, en um leið á líka að horfa til þess að aðrir fjölmiðlar í landinu á þessum erfiðu tímum máttu þola það að þurfa að segja upp mörgum af sínum starfsmönnum og breyta rekstri sínum og aðlaga sig nýju umhverfi. Það er eðlilegt að einnig sé gerð krafa til þessarar ríkisstofnunar, rétt eins og við gerum og höfum gert á undanförnum árum miklar kröfur til skólakerfisins, til heilbrigðiskerfisins og annarrar starfsemi á vegum ríkisins.

Virðulegi forseti. Ég vil nefna sérstaklega að stjórn og yfirstjórn Ríkisútvarpsins hefur á síðustu mánuðum unnið að lausn á þessum uppsafnaða vanda og ég tel að undirbúningur undir sölu á eignum til þess að grynnka á skuldum hafi verið rétt stefna.

Ég vil líka vekja athygli Alþingis á því að í síðustu viku bárust fréttir af því að borgaryfirvöld í samstarfi við Ríkisútvarpið væru að vinna að endurskipulagningu á lóð félagsins með það fyrir augum að hægt verði að hefja þar uppbyggingu í náinni framtíð. Þá hefur líka komið fram að hagrætt hefur verið í starfseminni á síðastliðnum mánuðum og ég ætla að hv. þingmenn hafi tekið eftir því, virðulegi forseti, að það hefur auðvitað verið umræða um ýmsar þær hagræðingaraðgerðir, t.d. eins og hvenær síðasta lag fyrir fréttir er spilað og annað ýmislegt sem þar hefur komið til umræðu.

Sú forgangsröðun sem hefur birst í þessum hagræðingaraðgerðum er að mínu mati um flest skynsamleg. Það er lagt upp með að reyna að verja dagskrána sjálfa, sér í lagi innlent efni. Hagrætt hefur verið í umgjörð, tækni og húsnæði. Ég tel að þarna sé stjórn Ríkisútvarpsins á ágætri leið.