144. löggjafarþing — 25. fundur,  3. nóv. 2014.

kjaramál lækna.

[15:13]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Aðeins um skýru fyrirheitin um uppbyggingu háskólasjúkrahússins. Þau birtast meðal annars í fjárlögum ársins 2014 þar sem í fyrsta skipti er sett inn fé til að halda þessu verki áfram og ljúka hönnun á tilteknum byggingaráformum. Það var ekki króna á fjárlögum ársins 2013 í það verk, ekki ein einasta króna. Þannig að skýr og afdráttarlaus vilji liggur fyrir af hálfu ríkisstjórnarinnar í því stóra verki.

Ég leyfi mér að minna á síðustu orð fjármálaráðherra í því sambandi sem féllu um síðustu helgi á flokksráðsfundi okkar sjálfstæðismanna. Framkvæmdir við þetta verk verða hafnar á kjörtímabilinu og það stendur. Engu að síður vil ég undirstrika það að til þess að það geti orðið þarf að finna fjármögnun á þetta stóra og mikla verk. Að því er unnið og við gerum ráð fyrir því að birta niðurstöðu þeirrar vinnu á fyrri hluta næsta árs.