144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

fráveitumál.

232. mál
[17:56]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda mjög áhugaverða fyrirspurn um mikilvægt mál.

Ferðamönnum á Íslandi hefur fjölgað mikið á undanförnum árum. Talningar sem Ferðamálastofa gerir í Leifsstöð á komum erlendra ferðamanna sýna að á tíu ára tímabili, frá 2003 til 2013, fjölgaði erlendum gestum um 470 þúsund sem jafngildir um 150% aukningu. Kannanir Ferðamálastofu leiða einnig í ljós að meiri hluti erlendra ferðamanna segir að íslensk náttúra sé ein helsta ástæða ákvörðunar um að ferðast til landsins.

Aukning ferðamanna er ánægjuleg fyrir þjóðarbúið, en gerir kröfu um bætta aðstöðu á ferðamannastöðum til að náttúra og umhverfi spillist ekki vegna álags. Til þess að takast á við verkefni eins og fráveitumál á fjölsóttum stöðum eins og við Mývatn og Laxá og eins við Þingvallavatn er nauðsynlegt að hafa sem bestar upplýsingar um álag vegna skolpmengunar og annarrar mengunar á þessi vötn. Einnig þarf regluverk að vera skýrt og leiðbeiningar aðgengilegar um hvernig því skuli fylgt.

Ég er sammála hv. fyrirspyrjanda að allt of lítið hafi gerst í þessum málaflokki á síðustu mörgum árum og hef því skipað nefnd um endurskoðun reglugerðarinnar um fráveitur og skolp sem ætlað er að einfalda ákvæði hennar og gera hana skýrari. Er sú vinna í fullum gangi. Einnig að endurskoðunin leiði til þess að bætt verði úr skráningu fráveitna þannig að betur megi leggja mat á stöðu þeirra. Ekki liggja fyrir nægar upplýsingar um álag á Mývatn og Þingvallavatn vegna skolplosunar. Ég hef því ákveðið að gerð verði úttekt á innstreymi næringarefna í þessi verðmætu stöðuvötn. Slík úttekt mun gefa yfirsýn yfir alla helstu álagsþætti og mun hjálpa okkur við mat á stöðu mála, forgangsröðun aðgerða og mat á líklegum árangri þeirra.

Varðandi það hvort ráðherra sé tilbúinn að beita sér fyrir því að ríkið komi að framkvæmdum vænti ég þess að starf við endurskoðun á fráveitureglugerð verði til þess að auðvelda okkur róðurinn í þeim efnum, með því að einfalda og bæta regluverkið og auðvelda okkur yfirsýn yfir stöðu mála og forgangsröðun. Ég tel rétt að nota sem mest það heildstæða mat sem nú er verið að vinna á vatni á Íslandi til að leiðbeina okkur um forgangsverkefni svo fjármunir til fráveitna og annarra umbóta nýtist umhverfinu sem best. Mögulega kæmi aðstoð ríkisvaldsins til greina við umbætur í fráveitumálum en ef af slíku yrði hlyti að vera horft meðal annars til verndargildis svæðanna, auk mats á álagi og ástandi þeirra.

Í stöðuskýrslu Umhverfisstofnunar um vatnasvæði Íslands er bent á ákveðna óvissuþætti varðandi Þingvallavatn og Mývatn sem varða þó ekki einungis fráveitur. Ég vil bæta upplýsingar og mat á ástandi þessara vatna eins og ég hef nefnt og skoða þar sérstaklega innstreymi næringarefna og hlut einstakra uppsprettna þar, svo sem frá fráveitum og umferð.

Hvernig er staða þeirra sveitarfélaga sem liggja inn til landsins og eiga ekki aðgang að sjó?

Almennt séð er nokkur munur þarna á hvað varðar viðtaka og kröfur sem rétt er að gera. Flestir þéttbýlisstaðir á Íslandi geta leitt skolp út í straumþungt Atlantshafið þar sem það ógnar umhverfinu lítið ef þess er gætt að skaðleg efni séu ekki til staðar. Inn til landsins þarf hins vegar yfirleitt að huga betur að málum og gæta þess að fráveitur mengi ekki ár eða stöðuvatn eða grunnvatn (Forseti hringir.) sem eru viðkvæmari viðtakar. Við höfum nokkra mynd af stöðu stærstu staðanna en Umhverfisstofnun tekur saman stöðuskýrslu á tveggja ára fresti sem byggir á upplýsingum frá heilbrigðisnefndum. Skýrslan tekur til þéttbýlisstaða með losun sem nemur fleiri en 2 þús. persónueiningum. (Forseti hringir.) Samkvæmt nýjustu skýrslu sem kom út í mars á síðasta ári eru 29 þéttbýlisstaðir á Íslandi yfir þessum stærðarmörkum. Þar af eru fimm sem liggja inn til landsins. Af þessum fimm eru þrír sem uppfylla (Forseti hringir.) kröfur um fráveitur. Við höfum ekki jafn gott yfirlit yfir minni staði og dreifbýli.

Varðandi síðustu spurninguna verð ég að fá að svara henni í síðara svari.