144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

almannaþjónustuhlutverk Ríkisútvarpsins.

256. mál
[19:21]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og vil í upphafi máls míns ítreka það sem fram hefur komið að samkvæmt 15. gr. laga um Ríkisútvarpið skal fjölmiðlanefnd árlega leggja sjálfstætt mat á það hvort Ríkisútvarpið hafi uppfyllt almannaþjónustuhlutverk sitt samkvæmt ákvæðum 3. gr. laganna. Matið skal afhent stjórn Ríkisútvarpsins og ráðherra eigi síðar en fjórum mánuðum eftir að ársskýrsla Ríkisútvarpsins hefur verið birt.

Í 2. mgr. segir að Ríkisútvarpið skuli láta fjölmiðlanefnd í té upplýsingar til að hún geti sannreynt og metið gagnsæi og hlutlæga kostnaðargreiningu á almannaþjónustuhlutverki Ríkisútvarpsins, byggða á ársreikningi næstliðins árs, að teknu tilliti til tekna að frádregnum kostnaði við þann hluta starfseminnar sem fellur undir samkeppnisrekstur. Fjölmiðlanefnd skal njóta liðsinnis Ríkisendurskoðunar í þessu efni.

Mat og eftirlit fjölmiðlanefndar samkvæmt 15. gr. laga nr. 23/2013, um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, var sent stjórn Ríkisútvarpsins og mennta- og menningarmálaráðherra með bréfi, dagsettu 2. júní 2014. Var þetta í fyrsta sinn sem fjölmiðlanefnd skilaði árlegu mati sínu, sem byggir á ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) frá því í febrúar 2011 og á leiðbeinandi reglum ESA varðandi ríkisstyrki aðila sem sjá um útsendingar í almannaþágu.

Það tímabil sem fjölmiðlanefnd var gert að skoða að þessu sinni náði aðeins til rúmlega fimm mánaða, þ.e. frá gildistöku laganna frá 22. mars 2013 til og með 31. ágúst 2013. Þannig tekur matið einungis til hluta af starfsári Ríkisútvarpsins og gefur ekki heildarmynd af starfsemi félagsins á ársgrundvelli. Sökum þess að nýr þjónustusamningur við Ríkisútvarpið, sem byggir á lögunum frá 2013, var ekki fyrirliggjandi þegar matið fór fram taldi fjölmiðlanefnd sig ekki geta metið með viðunandi hætti að þessu sinni hvort ákvæði laganna hafi verið uppfyllt. Nefndin taldi sig hvorki hafa sérfræðiþekkingu né fjármagn vegna hins fjárhagslega mats sem henni var gert að gera og því lagði hún að þessu sinni megináherslu á að fjalla um aðferðafræði matsins í ljósi almannaþjónustuhlutverks Ríkisútvarpsins en ekki að leggja sjálfstætt mat á almannaþjónustuna sem slíka.

Í stuttu máli má segja að í skýrslu fjölmiðlanefndar hafi, af ástæðum sem raktar eru að framan, almannaþjónustuhlutverkið ekki verið metið í víðum skilningi þess hugtaks heldur varpi hún frekar ljósi á þá þætti sem þarf að taka tillit til við slíkt mat. Þá er í skýrslunni gerð grein fyrir svörum Ríkisútvarpsins við spurningum fjölmiðlanefndar um hvernig það hafi staðið að framkvæmd þeirra atriða sem tilgreind eru í 3. gr. laga nr. 23/2013, um Ríkisútvarpið, og hins vegar um fjárhagslegan aðskilnað samkeppnisrekstrar og annarrar starfsemi, en í 3. gr. laganna er fjallað um fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu.