144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

æskulýðsstarf.

335. mál
[19:50]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Augljóst er að við erum sammála um mikilvægi þeirrar starfsemi sem hér um ræðir og nauðsyn þess að á komandi árum verði reynt hvað hægt er að bæta fjármunum til þessa starfs. Þó verður að hafa í huga að við þurfum að forgangsraða og á sama tíma og við stöndum frammi fyrir þessu vandamáli vil ég minna hv. þingmann á að við stöndum líka frammi fyrir því vandamáli að fjármunir sem renna til dæmis til framhaldsskólans eru allt of litlir. Við erum enn vel fyrir neðan önnur ríki OECD að meðaltali þegar kemur að fjármunum til þess skólastigs. Við erum líka með allt of litla fjármuni í háskólastigið, eins og ég ræddi um við hv. þm. Árna Pál Árnason. Það er alveg augljóst að það þarf að forgangsraða.

Á sama tíma eru líka uppi miklar kröfur um aukin framlög til kvikmyndagerðar, til annarrar menningarstarfsemi í landinu o.s.frv. Allt eru þetta góð verkefni. Við erum aftur á móti bundin af stöðu ríkisfjármála og þess vegna vonumst við til þess og væntum að hér eflist almannahagur og að hagkerfið taki vel og myndarlega við sér þannig að tekjur ríkissjóðs aukist og þar með séum við í betri færum til að sinna þeirri mikilvægu þjónustu sem við hv. þingmaður erum sammála um að við þurfum að gera og getum gert betur.