144. löggjafarþing — 27. fundur,  4. nóv. 2014.

byggingarsjóður Landspítala.

169. mál
[16:30]
Horfa

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um byggingarsjóð Landspítala. Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þm. Svandís Svavarsdóttir og Steinunn Þóra Árnadóttir.

Frumvarpið gengur út á það, eins og lesa má um í sex greinum þess, að stofnaður verði byggingarsjóður Landspítala sem verði sjálfstæður sjóður í vörslu fjármála- og efnahagsráðuneytis og starfræktur í því skyni að fjármagna nýbyggingar og meiri háttar endurnýjun húsakosts Landspítalans, okkar aðalsjúkrahúss og háskólasjúkrahúss.

Hlutverk sjóðsins yrði að taka við og eftir atvikum ávaxta markaðar tekjur samkvæmt lögunum. Þá verður sjóðnum sömuleiðis heimilt að taka við frjálsum framlögum enda væru þau afhent sjóðnum kvaðalaust í þeim tilgangi að renna til uppbyggingar Landspítala. Fjármunum úr sjóðnum yrði síðan varið til að endurgreiða ríkissjóði útlagðan stofnkostnað vegna nýbyggingar og meiri háttar endurnýjunar húsakosts Landspítalans eftir því sem framkvæmdum mundi vinda fram og fjármunir leyfa.

Í gildandi lögum um byggingu Landspítalans er gert ráð fyrir því að meginframkvæmdin verði opinber framkvæmd og ríkissjóður byggi og eigi húsnæðið.

Hinar mörkuðu tekjur kæmu af auðlegðarskatti samkvæmt ákvæði til bráðabirgða nr. XXXIII í lögum um tekjuskatt eins og nánar er komið að síðar í frumvarpinu. Þær rynnu alfarið og óskiptar til byggingarsjóðs Landspítalans.

Sjóðnum yrði jafnvel heimilt að taka lán til að greiða hraðar til ríkisins ef á það reyndi á einhverju tímabili en næmi innheimtum hinna mörkuðu tekna en þó aldrei meira en svo að slíkar lántökur til samans mættu þó ekki nema hærri fjárhæð en 4/5 hlutum þess sem eftir væri á áætluðum mörkuðum tekjum sjóðsins. Hinn markaði tekjustofn yrði auðlegðarskattur sem lagður yrði á í fimm ár sérstaklega í þessu skyni.

Núverandi ríkisstjórn hefur, eins og kunnugt er, ákveðið að framlengja ekki gildistíma auðlegðarskattsins þannig að hann er að koma til greiðslu í síðasta sinn á þessu ári, skilar ríkinu líklega um 10–10,5 milljörðum kr. en verður ekki greiddur eftir það. Þar af leiðir mundi koma eins árs hlé þó svo að þetta yrði að lögum á þessu ári og framlengdi skattinn til fimm ára þannig að tekjur mundu falla til á árunum 16, 17, 18, 19 og 20.

Hér er gerð sú breyting á útfærslu skattsins frá því sem verið hefur undanfarin ár að tekið er upp sérstakt frítekjumark, eða fríeignamark, ef um er að ræða eign í íbúðarhúsnæði til eigin nota, þá þannig að af fyrstu 30 millj. kr. í íbúðarhúsnæði til eigin nota hjá einstaklingi myndast ekki skattskylda og af fyrstu 40 milljónunum samanlagt í tilviki skattskyldra hjóna. Þetta mun væntanlega leiða til þess að þó nokkur fjöldi fólks, sem greitt hefur lítils háttar auðlegðarskatt á undanförnum árum og á þessu ári í síðasta sinn, yrði undanþegið skattskyldunni þar sem það mundi færast upp fyrir eignamörkin þar sem skattgreiðslurnar byrja og þyrftu einstaklingar að eiga að meðtaldri eign af þessari stærðargráðu í íbúðarhúsnæði um 110 milljónir í skuldlausa eign og í tilviki hjóna og sambýlisfólks 120 milljónir. Sem sagt þessu hærri fjárhæðarmörk en gilda í núverandi tilviki — um 140 milljónir, fyrirgefðu forseti.

Þetta er meðal annars gert til að mæta þeirri gagnrýni eða þeim málflutningi, sem nokkuð hefur verið uppi, að auðlegðarskatturinn í núverandi útfærslu og eins og hann hefur verið undanfarin ár hafi í sumum tilvikum komið nokkuð hart niður á fólki sem átti að uppistöðu til eign sína í skuldlausu íbúðarhúsnæði en hafði jafnvel litlar tekjur af þeirri eign eða af öðru og þurfti þess vegna jafnvel að ganga á eign sína til að geta greitt skattinn. Að vísu verður að hafa í huga að eignamörkin í auðlegðarskattinum hér hafa verið svo rúm að hann er ekki sambærilegur við hefðbundinn eignarskatt eða hinn gamla eignarskatt sem hér var við lýði á sínum tíma að nokkru leyti. Skatturinn er mjög nálægt því fyrirkomulagi sem er í Noregi þar sem um langt árabil, og ég kann nú ekki hve lengi, hefur verið við lýði sambærilegur skattur, svokallaður formue-skattur, og ríkasta fólkið í Noregi hefur lengi greitt skatt af þessu tagi.

Þá er auðvitað hugsunin sú að eftir því sem eignin er orðin meiri megi reikna með því að hún sé að stærri hluta til fjármunaeign, eign í hlutabréfum eða öðru slíku sem að jafnaði gefur af sér einhvern arð eða tekjur eða ávöxtun að minnsta kosti á þá eign sem stendur straum af greiðslu auðlegðarskattsins.

Auðlegðarskatturinn hefur verið að gefa um 10–10,5 milljarða kr. á þessu ári hinu síðasta og er stækkandi skattstofn vel að merkja, því að merkilegt nokk er stabbi Íslendinga sem á eignir af þessari stærðargráðu sem mældar eru í hundruðum millj. kr. í hreinni skuldlausri eign og allt upp í milljarða ef ekki tugi milljarða. Auðvitað eru það hinir eiginlegu greiðendur skattsins og langstærstu greiðendurnir eru fáein hundruð sem greiða hinar stóru fjárhæðir, hinir eiginlegu auðmenn Íslands. En vissulega hafa nokkur þúsund fjölskyldur lent í að greiða lítils háttar auðlegðarskatt, fólk sem er það vel sett að eiga skuldlausa og hreina eign af stærðargráðunni 80–100 millj. kr., kannski um 3.500 til 5.000 aðilar hafa greitt skattinn undanfarin ár, en þeim mundi fækka umtalsvert við þessa breytingu. Ef eitthvað er þá mætti segja að auðlegðarskatturinn yrði enn þá hreinni auðlegðar- eða stórauðlegðarskattur með þessari breytingu þar sem frádrátturinn vegna íbúðarhúsnæðis til eigin nota mundi væntanlega þýða að allmargir féllu undir þakið og greiddu ekki lengur skattinn ef hann yrði lögtekinn á nýjan leik með þessum hætti.

Það má áætla að þessar breytingar gætu leitt til, svona gróft reiknað, um 1 milljarðs tekjutaps frá núverandi fyrirkomulagi þannig að í stað 10 til 10,5 milljarða kr. gæfi skatturinn svona breyttur 9 til 9,5 milljarða á ári. Ég tek þó fram að ég hef ekki aðgang að nýjustu gögnum til að gera á þessu nákvæma útreikninga, en miðað við fjölda greiðenda og áætlun um það hvað þetta þar af leiðandi gæti lækkað tekjurnar þá er þetta besta nálgun sem ég hef aðstöðu til að gera.

Engu að síður, frú forseti, væri ríkið að fá þarna 9,5 milljarða kr. á ári í fimm ár. Það dugar til að byggja nýjan Landspítala. Svo einfalt er það mál.

Áætlaður kostnaður aðalbyggingar nýs Landspítala og bílastæðahúss, þ.e. meðferðarkjarna, rannsóknarhúss og sjúkrahótels og alls þess, er um 50 milljarðar á núgildandi verðlagi eða verðlagi síðastliðins vors. Þar af er meðferðarkjarninn sjálfur um 37 milljarðar kr. þannig að þetta dygði til að byggja meira en hann að langmestu leyti allar aðalbyggingarnar sem nefndar eru í þessu sambandi. Vissulega ekki til endurbóta á eldra húsnæði og þaðan af síður til kaupa á tækjum og tólum, en engu að síður er ljóst að bygginguna sjálfa væri hægt að fjármagna með þessum hætti.

Frú forseti. Ég tel að það sé umræðunnar virði og rúmlega það að fara yfir það hvort þetta sé nú ekki býsna góð ráðstöfun, að nokkur þúsund ríkustu fjölskyldurnar á Íslandi leggi lítillega af auði sínum næstu fimm árin til að þjóðin geti eignast nýjan Landspítala. Hverjir eru ríkustu menn Íslands? Jú, það eru meðal annars og væntanlega af augljósum ástæðum fólkið sem slapp þannig í gegnum hrunið að það á að því afstöðnu gríðarlega miklar eignir, meðal annars vegna þess hvernig fjármálakerfið var endurreist, að allar innstæður og eignir manna í bönkum voru færðar yfir í nýja banka og engar afskriftir á því, eða að eignirnar og verðmætin voru bundin í óforgengilegum hlutum sem hafa haldið verðmæti sínu. Við sjáum á skattstofninum, hvernig hann hefur þróast undanfarin ár, að þessi auður fer vaxandi á nýjan leik. Ég vil því gjarnan fá einhver rök fyrir því af hverju þetta er ekki kostur sem er einnar messu virði að skoða.

Jafnvel þó að einhver sjónarmið væru uppi um það að skatturinn ætti að vera lægra hlutfall af auðnum en hann hefur verið undanfarin ár, kannski 1% slétt í staðinn fyrir 1,2% eða hvað það nú er, mundi muna mjög verulega um það, ef við fengjum með slíkri tekjuöflun 30 til 35 ef ekki 50 milljarða á næstu fimm árum upp í þennan kostnað. Og það er þannig að ef skatturinn væri settur á með lögum núna og kæmi til greiðslu í fyrsta sinn árið 2016 þá er það áður en framkvæmdir mundu hefjast af verulegum krafti þannig að það mundu byrja að safnast í byggingarsjóð Landspítalans meiri fjármunir en verið væri að ráðstafa sennilega fyrstu eitt til tvö árin. Þar með væri það fé farið að ávaxtast og mundi gefa í fyllingu tímans af sér enn meira til byggingarinnar.

Um þörfina fyrir úrbætur í húsakosti Landspítalans þarf væntanlega og vonandi ekki að hafa mjög mörg orð. Nægjanlegur hefur nú fréttaflutningurinn verið af ástandinu þar. Ég held að rík þjóðarsamstaða sé orðin um það að þetta eigi að vera eitt af forgangsverkefnum íslenskra þjóðmála á næstu árum. Það hafa væntanlega fleiri en ræðumaður orðið þess varir hvernig þjóðin brást til dæmis við eftir að hafa setið límd framan við sjónvarpið og hlustað á hóp sérfræðinga af Landspítalanum lýsa ástandinu þar. Nær daglegar fréttir eru af heilsuspillandi vinnuaðstæðum, skemmdum á húsnæði, maurum eða hvað það nú er. Að ógleymdu óhagræðinu sem er af því að reka spítalann í núverandi formi, að ógleymdri þeirri staðreynd að það er engin framtíð í því fyrir heilbrigðisþjónustuna á Íslandi að reyna að klastra lengur upp á Landspítalann í óbreyttu húsnæði; á mörgum stöðum í bænum og að uppistöðu til algerlega tvískiptan með tilheyrandi viðbótarkostnaði, flutningum á milli o.s.frv.

Þegar allt bætist svo við, þrengingar í rekstri undanfarin ár, mikið vinnuálag, mannekla og vaxandi svartsýni á að okkur takist að halda í hæft starfsfólk o.s.frv., þá er það ekki eitt heldur allt sem hnígur í sömu átt í þeim efnum að þetta er eitt allra brýnasta forgangsverkefni í íslensku velferðarsamfélagi, það er að byggja nýjan Landspítala.

Menn geta endalaust farið í nýjar og nýjar ferðir varðandi það hvort það sé rétt niðurstaða að velja staðsetninguna við Hringbraut, að velja það að byggja að uppistöðu til nýja byggingu en notast við allt eldra húsnæði sem er sæmilega hentugt. Ég held við séum bara komin fram hjá þeirri umræðu, hún er búin og niðurstaðan hefur alltaf orðið sú sama að þetta er vænlegasti kosturinn. Það gerir ekkert annað en tefja málið að þvæla meira um það.

Loksins eru skipulagsmálin komin á sinn stað og hönnun langt komin þannig að gríðarlegum tíma og fjármunum væri sóað ef menn ætluðu eitthvað að fara að endurskoða þá ákvörðun. Og ég held við höfum ekki tíma til þess. Við höfum heldur ekki ráð á því að fara aðra leið í þessum efnum en þá sem er viðráðanlegust í kostnaði talið og það er þessi leið. Það er held ég algerlega augljóst mál að ef við værum að tala um uppbyggingu nýs Landspítala í heild sinni á nýjum stað værum við að tala um allt að tvöfalt hærri fjárhæð. Það eru verðmæti í því húsnæði sem er gott á Landspítalanum eins og nýjum barnaspítala, K-byggingu og fleiri, auk þess sem sögulega og menningarlega er akkur í því að gamli Landspítalinn fái áfram að vera hluti af starfseminni og njóta sín sem slíkur.

Frú forseti. Ég sannfærðist um það strax á árunum 2009 og 2010 að þetta væri rétt niðurstaða, hafandi lagt í það dálítinn tíma að setja mig inn í það. Ég held að við megum engan tíma missa að ráðast í úrbætur í þessum efnum.

Ef eitthvað er þá fara áhyggjur manns af stöðu heilbrigðismála dagvaxandi. Ofan í allt bætist læknaverkfall, þung umræða um atgervisflótta eða brottflutning sérfræðinga, erfiðleika við að fá fólk aftur heim til starfa eftir sérnám; og vinnuaðstæðurnar eru hluti af því, það er alveg á hreinu. Það er fleira en launin ein sem skipta máli þegar ungt metnaðarfullt fólk með sérfræðiþekkingu er að velta því fyrir sér hvar það vilji setja sig niður. Þá eru nútímalegar og góðar vinnuaðstæður að sjálfsögðu stór hluti af því. Einnig hóflegt vinnuálag og annað í þeim efnum að sjálfsögðu og laun, en mikið væri fengið með því að geta gengið frá því og sýnt í verki að fram undan væri innan ekki langs tíma úrlausn á þessu sviði.

Öll heilbrigðisþjónustan í landinu er algerlega háð því að móðurskipið sjálft sé til staðar til að taka við öllum þyngstu og erfiðustu og sérhæfðustu verkefnunum þannig að þetta er Landspítali allrar þjóðarinnar. Þetta er endastöðin í öllu heilbrigðiskerfinu og vonandi tekst mönnum að hefja sig upp yfir allan hrepparíg í þeim efnum, hvaðan sem þeir nú koma eða hvar sem þeir eru kosnir á þing, að við eigum að sameinast um þetta verkefni. Ég held reyndar að að mestu leyti sé samstaða um að þetta sé bráðnauðsynleg framkvæmd, en þá hafa menn borið fyrir sig að það vanti fjármuni. Við höfum heyrt það héðan úr þessum ræðustól og víðar í umræðunni. Jú, jú, það er mjög nauðsynlegt að reyna að byggja nýjan Landspítala, en það vantar peninga. Það er ekki svigrúm fyrir því í ríkisfjármálaáætlun næstu ára, hefur hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra stundum sagt. En bíddu, hver býr til það svigrúm eða ekki svigrúm? Er það ekki mannanna verk? Er það ekki búið til meðal annars með því hvernig menn stemma af tekjuöflun og útgjöld ríkisins? Jú, það hélt ég og tel mig alveg kunna stafrófið í þessum efnum. Það er hægt að búa til svigrúm sem ekki er til staðar með því að afla tekna upp á þá milljarða sem til þarf. Við erum ekki að tala um nein ósköp.

Vandinn er sá að þessari umræðu hefur verið stillt upp eins og þetta sé alveg óyfirstíganlega stórt og erfitt verkefni fyrir þjóðina. En er það svo? Nei, það er ekki svo. Við erum að tala um að við þurfum svona 6–8 milljarða kr. á sex til sjö ára tímabili til að byggja nýjan Landspítala. Hvað eru 6–8 milljarðar kr.? Jú, það er ekki nema — af 600–700 milljarða veltu ríkissjóðs eru það engin ósköp — rétt rúmlega 1–1,5% af núverandi veltu ríkissjóðs. Þetta eru 0,3–0,4% af vergri landsframleiðslu. Ætlar einhver að reyna að segja mér að ekki sé hægt að búa til svigrúm í fjárlögum næstu fimm til sjö ára upp á um það bil 0,3% af vergri landsframleiðslu til að byggja nýjan Landspítala? Jú, það er hægt. Að halda öðru fram byggir einfaldlega ekki á rökum. Það er þá bara pólitík. Það er þá bara pólitísk ákvörðun, pólitísk niðurstaða, að það svigrúm skuli ekki verða til.

Það má jafnvel velta því fyrir sér, þó ríkissjóður sé að sönnu skuldugur og þyrfti helst að fara að greiða niður skuldir sínar, að auðvitað væri það enginn heimsendir þó að þjóðin þyrfti að einhverju leyti að flýta fyrir þessari framkvæmd með lántöku. Af hverju væri það svona ofboðslega óábyrgt eða óverjandi eins og það bara hreinlega komi ekki til greina? Þó það þýddi ef afgangur á ríkissjóði væri að niðurgreiðsla skulda yrði eitthvað hægari á einhverju árabili ef við fáum í staðinn nýjan Landspítala og við spörum 3 milljarða á ári í rekstrarkostnaði með því að fá hann. Er það ekki bara ágætis ávöxtun af þeim fjármunum sem við værum að leggja í þetta? Jú, ég held það.

Þannig að ég segi, frú forseti: Góðir þingmenn, við skulum ekki láta segja okkur of miklar draugasögur í hábjörtu. Það er ekki þannig að þetta sé svona ægilega stórt og óviðráðanlegt eins og sumir hafa viljað vera láta. Það er bara ekki þannig. Þetta eru minni peningar en við erum búin að setja í Íbúðalánasjóð frá hruni, svo að dæmi sé tekið. Það er ekki gott dæmi því að það eru sokknir fjármunir. Hér værum við að fjárfesta. Hér værum við að byggja upp framtíðareign. Hún er okkur lífsnauðsynleg. Það er svo margt sem mælir með því að við ráðumst í þetta verkefni, ástandið í heilbrigðiskerfinu, ástandið á Landspítalanum sjálfum og allt það sem ég hef hér áður nefnt. Þannig að ég skal ekki eyða meiri tíma í þetta.

Virðulegur forseti. Ég hvet til þess að þingið taki þessi mál föstum tökum. Ef hæstv. ríkisstjórn er sjálf ekki í færum til þess þá getur Alþingi sett sitt mark á þessa framvindu eins og reyndar hefur þegar verið gert. Til umfjöllunar er nú í nefnd tillaga hv. þm. Kristjáns L. Möllers um að skapa samstöðu um meðal annars þetta að leita leiða til að finna fjármagn í bygginguna. Hér er ein uppástunga, hv. þm. Kristján L. Möller, sem ég tel einnar messu virði þó að hún yrði ekki kannski fyrir valinu að öllu leyti.

Segjum að við næðum saman um að leggja á hálfan auðlegðarskatt í fimm ár, mættumst á miðri leið milli þeirra sem væru tilbúnir til að hafa hann áfram á fullum þunga og hinna sem vilja ekki hafa hann, bjóðum bara upp á það, liðinu sem telur það mesta forgangsverkefnið á Íslandi um þessar mundir að lækka sérstaklega skatt á ríkasta fólkið á Íslandi, eitthvað sem okkur gengur sumum erfiðlega að skilja en er bara svona samt, það er bara þannig. En segjum þá við slíka aðila: Eigum við að mætast á miðri leið og leggja á hálfan auðlegðarskatt í fimm ár? Þá eigum við langleiðina fyrir að minnsta kosti meðferðarkjarnanum, þá ættum við langleiðina fyrir meðferðarkjarnanum og reyndum svo einhvern veginn að finna leiðir í að skrapa saman fyrir hinu.

Með vísan til þess, frú forseti, að þegar liggur fyrir þinginu þingmál um þetta efni, sem tengist byggingu nýs Landspítala, og er til umfjöllunar í hv. velferðarnefnd, þá er ég að hugsa um að leggja til að þetta frumvarp fari þangað sömuleiðis þó að auðvitað mætti færa fyrir því rök að það standi nær ríkisfjármálum og ætti þar af leiðandi erindi inn í annaðhvort efnahags- og viðskiptanefnd eða fjárlaganefnd. En ég tel ekki ástæðu til að vera að efna til tvíverknaðar í þessum efnum og legg því til að að lokinni þessari umræðu gangi frumvarpið til hv. velferðarnefndar.