144. löggjafarþing — 28. fundur,  5. nóv. 2014.

störf þingsins.

[15:04]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Í gær bárust fréttir af því að Stjórnarráðið hefði sagt upp konum sem vinna við ræstingu. Um er að ræða tekjulægsta hóp Stjórnarráðsins og allt eru þetta konur á þeim aldri að þær eiga ekki endilega auðvelt með að fá sambærileg störf annars staðar á sömu kjörum. Þetta eru 18 konur sem nú missa vinnuna, sex af þeim eru eldri en 60 ára og sjö á aldrinum 50–60 ára. Þær eru í mismunandi starfshlutfalli en flestar fá greitt miðað við 60–70% starfshlutfall. Það getur varla talist stórmannleg ákvörðun að reka stóran hóp af fullorðnum konum sem hafa séð um ræstingar og ef þær fá vinnu er ekki ósennilegt að það verði hjá verktakafyrirtæki sem borgar lágmarkslaun eða þá að ríkið kemur hinum megin frá borðinu og borgar þeim atvinnuleysisbætur.

Virðulegi forseti. Við erum að tala um lægst launuðu konurnar sem vilja vinna en eru settar út á guð og gaddinn til þess að spara hjá ríkissjóði. Ja, aumt er það. Það er lítil reisn yfir svona aðgerðum og ótrúlegt á sama tíma og ríkisstjórnin vill ekki framlengja auðlegðarskattinn eða fá aukna greiðslu fyrir afnot af sameign þjóðarinnar, sjávarauðlindinni. Nei, þá skulum við frekar leggja niður láglaunakvennastörf.

Svo laust því niður í kollinn á mér í gær þegar ég las þessa frétt að þingmenn ríkisstjórnarflokkanna hafa margir hverjir talað mikið fyrir því að fækka ríkisstarfsmönnum og á endanum snýst þetta um hausatölu þeirra sem vinna hjá ríkinu. Núna þegar búið er að fjölga ráðherrum og aðstoðarmönnum verður að fækka hausunum aftur svo talningin komi rétt út.

En skyldu launamálin vera svipuð hjá því fólki sem bæst hefur við og þeim konum sem nú er sagt upp?

Virðulegi forseti. Í gær var sagt hér af svipuðu tilefni: Svona gerir maður ekki.

Því miður styður þessi aðgerð við það sem hefur margoft verið sagt, að við völd á Íslandi í dag er ríkisstjórn hinna ríku.