144. löggjafarþing — 28. fundur,  5. nóv. 2014.

störf þingsins.

[15:24]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F):

Virðulegi forseti. Mér finnst svolítið skondið að á meðan sveitarfélög um allt land berjast fyrir því að halda uppi samgöngum við höfuðborgina, halda uppi flugvöllum, halda flugbrautum við úti á landi, skuli eitt sveitarfélag, höfuðborgin, berjast fyrir því að fá að eyðileggja sinn flugvöll. Á sama tíma og verið er að tala um að eyðileggja flugvöll, sumir tala reyndar um að færa flugvöll, ég veit ekki hvernig það er hægt, og á sama svæði erum við að tala um, og allir sammála um það, að byggja upp hátæknisjúkrahús sem kostar 80 milljarða en við höfum ekki efni á því. Það er samt allt í lagi að eyðileggja heilan flugvöll.

Ég spyr: Er fólk ekki alveg með á nótunum? Reykjavíkurflugvöllur er í 80% tilfella í öllu utanlandsflugi notaður sem varavöllur sem þýðir — hvað? Að ef Reykjavíkurflugvöllur er ekki fyrir hendi og við þurfum að nota völlinn á Akureyri eða á Egilsstöðum sem varavöll fyrir utanlandsflug þá þurfa vélarnar að bera upp undir 5 tonn af aukaeldsneyti. Ætli það kosti ekki um 500 kíló? Hvar eru umhverfissinnar? Hvaða mengun er það fyrir flugið, fyrir utan kostnaðinn, að þurfa að bera fleiri tonn af eldsneyti á milli? Í mörgum tilfellum þarf utanlandsflug að nota Glasgow sem varavöll í norðanáttum þannig að þá fyrst fer þetta að telja.

Eigum við ekki að gera okkur grein fyrir raunveruleikanum? Ég spyr bara: Hvað kemur næst? Þarf ekki næst að (Forseti hringir.) fylla Reykjavíkurhöfn til að búa til fleiri (Forseti hringir.) kaffihús? [Kliður í þingsal.]