144. löggjafarþing — 28. fundur,  5. nóv. 2014.

störf þingsins.

[15:34]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Formenn stjórnmálaflokka halda iðulega stórar ræður á flokksráðsfundum eða viðlíka fundum í flokkum sínum til að fara yfir stefnumál og helstu áherslur flokkanna. Athygli vakti að formaður Samfylkingarinnar, hv. þm. Árni Páll Árnason, hélt eina slíka ræðu á laugardaginn. Þar talaði hann meðal annars um útlendinga. Sá tónn sem birtist okkur í viðhorfum formannsins í þessari ræðu er mjög sérkennilegur. Orðrétt sagði hv. þingmaður:

„Íslendingar með meiri menntun flytja utan. Útlendingar með litla skólagöngu flytja til landsins.“

Ég á ekki seturétt á þessum fundum Samfylkingarinnar, sem betur fer enda er ég ekki hluti af því (Gripið fram í.) samfélagi og verð seint, en ég tel að ef þetta er áherslan hjá formanni Samfylkingarinnar gagnvart þeim útlendingum sem kjósa sér það að flytja hingað, hvort sem það er með litla skólagöngu á bakinu eða mikla, þurfum við að taka einhverja umræðu um það hér í salnum.

Ég verð að segja að mér líkar ekki þessi tónn. Ég tel að við eigum að bjóða velkomna þá útlendinga sem hingað vilja koma og eru í atvinnuleit, hvort sem þeir eru hingað komnir til þess að leita í láglaunastörf eða hálaunastörf, enda vinna þeir að mikilvægum þáttum í okkar samfélagi. Í minni heimabyggð, á Hvolsvelli, búa mjög margir, sérstaklega sem koma frá Póllandi, og vinna störf sem ekki er hægt að fylla með því ágæta fólki sem býr í Rangárvallasýslu. Könnun meðal pólska samfélagsins á Íslandi hefur sýnt að tæp 70% þeirra höfðu framhaldsmenntun og rúm 20% hafa stundað háskólanám. (Forseti hringir.) Ég tel mikilvægt að ræða staðreyndir og ekki vera með svona fordóma.