144. löggjafarþing — 28. fundur,  5. nóv. 2014.

aðgerðaáætlun um geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn, unglinga og fjölskyldur þeirra.

52. mál
[16:26]
Horfa

Flm. (Karl Garðarsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti Ég þakka hv. þm. Elínu Hirst fyrir þessa fyrirspurn. Ég held að nefndin sem hún minnist á og við erum í ásamt fleiri þingmönnum sé gífurlega mikilvæg. Það kallar svolítið á mann hversu fá mál í þinginu þar sem við sitjum varða börn og ungmenni beint. Þetta er gríðarlega stór hópur í þjóðfélagi okkar sem verður út undan vegna þess að það er einhvern veginn ekki í tísku að vera með mál sem varða einmitt þann stóra hóp, framtíð þjóðarinnar.

Ef við sem erum í þessum hópi og aðrir þingmenn gætum sammælst um að fara að horfa aðeins á hverjar þarfir barna í þjóðfélaginu í dag eru, hvað brýnast sé að við gerum til að bæta hag þeirra, væri mikið unnið með því. Ég held að flest málin séu þess eðlis að við eigum að geta náð þeim nokkuð vel í gegnum þingið og náð breiðri samstöðu um þau. Ég held að innst inni séu nánast allir þingmenn sammála um að við eigum að reyna að bæta hag barna og láta þeim líða sem allra best og búa þau sem best undir framtíðina. Ég vonast því til þess að hópurinn, sem fundar á morgun ef ég man rétt, áorki því og geti vakið athygli á því hversu mikilvægt það er að standa vörð um hag barna og standa vörð um þau mál sem varða okkur öll, varða heilsu þeirra, framtíð o.s.frv.

Ég held að við ættum að sammælast um að taka höndum saman um að reyna að vinna að málefnum barna í þinginu og koma með fleiri mál sem varða þau og hagsmuni þeirra.