144. löggjafarþing — 28. fundur,  5. nóv. 2014.

aðgerðaáætlun um geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn, unglinga og fjölskyldur þeirra.

52. mál
[16:41]
Horfa

Eyrún Eyþórsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil lýsa ánægju minni með þessa þingsályktunartillögu. Ég held að bætt geðheilbrigðisþjónusta og aðgengi að sálfræðimeðferð fyrir börn og unglinga og fjölskyldur þeirra sé ekki bara þörf heldur gríðarlega mikilvæg. Þess vegna fagna ég tillögunni.

Ég vil ítreka mikilvægi þess að sporna gegn vanlíðan og kvíða barna sem virðist vera samkvæmt rannsóknum að aukast og satt best að segja er tölfræðin óhugnanleg. Það er alltaf hætta á því, þegar ekkert er að gert þegar geðheilbrigðisvandi ungs fólks er til staðar, að vandinn ágerist og geti orðið erfiðari viðureignar síðar meir á ævi viðkomandi og jafnvel óyfirstíganlegur.

Í starfi mínu sem lögreglukona í kynferðis- og ofbeldisbrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á ég mjög oft samtal við ungt fólk sem glímir við ýmiss konar slíkan vanda. Oft eru þetta aðilar sem hefur verið brotið gegn og þurfa þess vegna mikla meðferð í kjölfarið. Ég hef líka oft á tíðum velt því fyrir mér hvort þeir sem brjóta gegn öðrum, þeir sem eru í dag ungir fangar, hafi mögulega verið með ýmiss konar vanda í æsku sem ekki var gert neitt við og hafi kannski valdið því eða verið hluti af því vandamáli sem síðan hefur leitt viðkomandi til glæpa og afbrota.

Þannig að eins mikilvægt og það er að skima og vera með forvarnir er líka gríðarlega mikilvægt að gefast aldrei upp á börnum og unglingum. Þeim börnum og unglingum sem hafa villst af leið og ratað í ógöngur þarf að sýna umburðarlyndi og það þarf að vera til kerfi sem tekur utan um þau og veitir þeim tækifæri og sumum jafnvel oftar en einu sinni eða oftar en tvisvar. Það þarf að vinna með þessi börn, því ég er sannfærð um það að allir geta náð bata með réttri meðferð.

Ég held að markmið þessarar þingsályktunartillögu yrði samfélaginu til hagsbóta í heild sinni og er gríðarlega mikilvægt fyrir börn og unglinga sem glíma við erfiðleika og fjölskyldur þeirra.