144. löggjafarþing — 28. fundur,  5. nóv. 2014.

millilandaflug um Hornafjarðarflugvöll.

32. mál
[17:20]
Horfa

Flm. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um millilandaflug um Hornafjarðarflugvöll. Þessi tillaga hefur verið flutt áður, fyrst á 141. löggjafarþingi og síðan á 143. löggjafarþingi.

Efnislega felur tillagan það í sér að Alþingi álykti að fela innanríkisráðherra að tryggja að á Hornafjarðarflugvelli verði nægjanlegur búnaður og aðstaða til að hægt verði að sinna þaðan millilandaflugi með minni farþegaflugvélum og vélum í ferjuflugi sem hafa núna heimild til þess að fljúga um völlinn.

Forsaga málsins er sú að í janúar 2008 unnu Flugstoðir úttekt á því, að beiðni sveitarstjórna og annarra hagsmunaaðila, hvaða möguleikar væru á því að gera flugvellina á Ísafirði, í Vestmannaeyjum og á Hornafirði að millilandaflugvöllum og hvað þyrfti til að slíkt gæti orðið að veruleika og jafnframt hver kostnaðurinn gæti orðið. Vissulega er langt síðan árið 2008 var. Það þarf auðvitað að uppfæra þær kostnaðartölur sem eru í skýrslunni þegar menn skoða þetta mál í nefndinni, en það eru nokkur atriði sem horfa þarf til.

Það eru þrjár reglugerðir sem taka þarf tillit til gagnvart Hornafjarðarflugvelli. Það þarf í fyrsta lagi að gera breytingar á viðauka 1 við reglugerð um útlendinga og bæta Hornafirði þar á lista yfir skilgreindar landamærastöðvar. Þá þarf að uppfylla skilyrði reglugerðar um flugvelli vegna mannvirkja og öryggisstjórnunarkerfis og flugvallarskírteinis. Í þriðja lagi þarf að uppfylla skilyrði reglugerðar um flugvernd.

Í 5. gr. reglugerðar nr. 464/2007, um flugvelli, eru millilandaflugvellir sem falli undir flokkinn flugvöllur I greindir vegna mannvirkja og öryggisstjórnunarkerfis. Hornafjarðarflugvöllur er núna skilgreindur sem skráður lendingarstaður. Þegar flugvöllurinn verður fluttur úr flokknum lendingarstaður til áætlunarflugs upp í flugvöll í flokki I og þar með skilgreindur eins og flutningsmenn hér leggja til þá hafa ákvæði þessarar reglugerðar fyrst og fremst áhrif á kostnaðinn. Kröfur til mannvirkja fela einkum í sér stofnkostnað svo sem vegna öryggissvæða, en það þarf að stækka öryggissvæðin í kringum völlinn miðað við tillögur og niðurstöður Flugstoða. Það þarf að auka starfslið til þess að vinna við þau verkefni sem fylgja þessari breyttu skráningu á flugvellinum, bæði á vellinum sjálfum og hjá miðlægum deildum Flugstoða. Síðan er stofnkostnaður vegna vopnaleitarbúnaðar og breytingar á aðstöðu, aðallega vegna vopnaleitar og umsýslu vegna flugverndar á svæðinu.

Við þekkjum umræðuna um breytingar á samfélaginu vegna aukinnar ferðaþjónustu hér á landi. Þessi tillaga er fyrst og fremst lögð fram með tilliti til þess að auðvelda aðgengi að okkar ágæta landi og fjölga þeim möguleikum sem hægt er að bjóða upp á. Í ljósi þess að Vatnajökulsþjóðgarður hefur nú verið stofnaður og í samhengi við þjóðgarðinn væri hægt að gera þarna frábæra hluti til að styrkja atvinnulífið á svæðinu og fjölga möguleikum þeirra sem hafa áhuga á að sækja Íslands heim til þess að skipuleggja dvöl sína hér.

Flutningsmenn þessarar tillögu eru allir þingmenn kjördæmisins. Þeir eru sú sem hér stendur, hv. þm. Vilhjálmur Árnason, hv. þm. Oddný G. Harðardóttir, hv. þm. Páll Valur Björnsson, hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir, hv. þm. Haraldur Einarsson, hv. þm. Páll Jóhann Pálsson og hv. þm. Ásmundur Friðriksson.

Ég mæli með því, herra forseti, að málið gangi til umhverfis- og samgöngunefndar og vonast svo sannarlega til þess að það fái þar jákvæða umfjöllun, við fáum umsagnir frá helstu hagsmunaaðilum sem um ræðir og jafnframt að kostnaðartölurnar úr skýrslunni frá 2008 verði uppfærðar.