144. löggjafarþing — 29. fundur,  6. nóv. 2014.

verkfall lækna.

[11:35]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Hér hefur verið talað um að gert sé eitthvert pólitískt deiluefni úr þessu máli. Stjórnarliðar hafa ítrekað að heilbrigðiskerfið skuli fjármagnað af skattfé. Það gleður mig. Það gleður mig að þvertekið sé fyrir það að fara eigi í einhverjar einkavæðingarpælingar og ég gleðst yfir því að þetta eigi ekki að vera pólitískt deiluefni. Ég trúi að svo verði ekki því að þegar allt kemur til alls hefur það komið fram í stefnuyfirlýsingu hjá stjórnarflokkunum að heilbrigðiskerfið skuli rekið með skattfé. Ástæðan fyrir því er auðvitað sú að það yrði allt vitlaust á Íslandi ef stefnan yrði einhver önnur. Það ríkir fullkomin sátt um stefnuna hér á landi.

Það sem ég hef áhyggjur af er að viðvarandi krísa í þessum málaflokki, hvort sem það er ætlunin eða ekki, leiði óhjákvæmilega af sér þrýsting í aðra átt. Ef ríkisstjórnin ætlar sér að hafa þennan málaflokk algjörlega í lagi þá liggur ábyrgðin hjá ríkisstjórninni sjálfri. Það á að vera fullyrðing um að ráðherrann ætli að bjóða betri kjör. Eina sönnunin fyrir því að þessi málaflokkur sé tekinn eins alvarlega og á að taka hann er að þessi þróun snúist við.