144. löggjafarþing — 29. fundur,  6. nóv. 2014.

tekjuskattur o.fl.

356. mál
[12:01]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér þykir miður að hæstv. fjármálaráðherra geti ekki upplýst um þetta atriði, þ.e. aðkomu embættanna sem undir ráðuneytið heyra og fara með skattamál og skattrannsóknir. Þetta er nefnilega tæknilegt mál í eðli sínu sem getur varðað mikla hagsmuni. Ég hvatti líka til þess í tíð síðustu ríkisstjórnar að fjármálaráðuneytið kæmi ekki með frumvörp um skattamál öðruvísi en að farið hefðu fram viðræður við þessi tvö embætti, ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra, um efni þeirra og það lægi fyrir að stuðningur væri af hálfu þeirra embætta við þær breytingar sem lagðar væru til. Það er auðvitað sérstaklega mikilvægt þegar kemur að flóknum atriðum sem geta meðal annars varðað skattsniðgöngu og geta haft áhrif á framkvæmdina.

Ég skil hæstv. fjármálaráðherra þannig að frumkvæðið að þessum atriðum komi frá embættismönnum fjármálaráðuneytisins, að það séu ekki neinar pólitískar áherslur sem hér koma inn, að þær séu uppsóp vegna einhverra framkvæmdaratriða sem séu klárlega tæknilegs eðlis en að hér sé ekki um að ræða pólitískt frumkvæði að breyttum áherslum í skattamálunum. Ég geri þá engar athugasemdir við málið.