144. löggjafarþing — 30. fundur,  11. nóv. 2014.

húsnæðismál Landspítalans.

[13:41]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Það er hárrétt sem hv. þingmaður segir að mjög margir hafa áhyggjur af stöðu heilbrigðismála og Landspítalans ekki hvað síst. Það er ekkert skrýtið eftir þann gríðarlega niðurskurð sem sú stofnun var látin ganga í gegnum á síðasta kjörtímabili þar sem var skorið niður langt umfram það sem hóflegt eða eðlilegt gat talist miðað við þörfina. Þrátt fyrir allt hefur ný ríkisstjórn verið að snúa þessu við og bæta í heilbrigðisþjónustuna og koma í auknum mæli til móts við Landspítalann til að mæta þeirri gríðarlegu þörf sem safnast hefur upp á undanförnum árum. Það breytir ekki því að vissulega þarf meira til, það er rétt sem hv. þingmaður segir. En nokkrir ráðherrar, þar með talið hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. heilbrigðisráðherra auk þess sem hér stendur, hafa bent á það að sterkari staða ríkissjóðs vegna aðgerða sem ríkisstjórnin hefur gripið til, oft á tíðum erfiðra aðgerða, leiðir til þess að við erum að komast í stöðu til þess að bæta í og byggja upp á sviði heilbrigðismála og meðal annars að koma til móts við Landspítalann.

Það hefur engin áhrif á hitt að hægt skuli vera að fjármagna skuldaleiðréttinguna á enn hagkvæmari hátt en áður leit út fyrir. Það er að sjálfsögðu í þágu heimilanna og er líka í þágu ríkisins. Það veikir ekki stöðu okkar á öðrum sviðum eða möguleika okkar á að byggja upp í heilbrigðiskerfinu, þvert á móti, það styrkir stöðuna.